Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:00:20 (1376)

2003-11-06 18:00:20# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. hefur verið fjarri þinginu lengi og ferðast víða um heiminn og eflaust hitt marga mektarmenn, verið í miklum partíum og boðum og ekki hitt nokkurn einasta mann sem hefur efasemdir um NATO. Það er helst hér á þingi sem hann heyrir einhverjar efasemdarraddir þar að lútandi. En ég get fullvissað hann um að í Evrópu og heiminum öllum eru vaxandi efasemdir um þetta hernaðarbandalag og þær breytingar sem gerðar hafa verið á því á liðnum árum. Ég vil beina þeirri spurningu til hans hvort hann taki ekki undir að það hafi orðið ákveðnar breytingar frá 50 ára afmælinu. Þá var ákveðið að endurskilgreina varnarhlutverk NATO og hverfa frá þeirri hugsun að NATO beri að bregðast við árás á einstök aðildarríki og fara yfir í hina afstöðuna að NATO beri að bregðast við ógn sem kunni að steðja að aðildarríkjunum með fyrirbyggjandi aðgerðum og hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að ákvarðanir í þessa veru hafi verið teknar síðan á NATO-fundi í Prag. Hafa engar breytingar átt sér stað sem ástæða er til þess að ræða? Alla vega heyrir maður það í evrópskum fjölmiðlum að menn hafa af þessu áhyggjur vegna þess að ef þetta er rétt, að NATO eigi að beita á annan hátt en hefur verið gert, sem fyrirbyggjandi tæki, þá séum við háðari þeim sem þar eru ráðandi, sem eru náttúrlega Bandaríkin. Ef Bandaríkin telja hagsmunum sínum ógnað og telja mikilvægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og beita þar NATO fyrir sig, (Forseti hringir.) þá kunni annars konar hætta að steðja að okkur af samstarfinu innan NATO.