Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:06:34 (1379)

2003-11-06 18:06:34# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. talar um alhæfingar. Ég heyri hann ekki ræða um þessi mál öðrvísi en hann tali um undirlægjuhátt og að við fylgjum Bandaríkjamönnum í einu og öllu. Eru það ekki alhæfingar?

Það má vel vera að hv. þm. sé ekki á móti öllu sem kemur frá Bandaríkjunum. Ég býst við því að það sé rétt að hann sé sammála einhverju. Ég hef hins vegar aldrei heyrt það vegna þess að mér finnst hann alltaf nálgast mál með neikvæðum hætti eins og er í sjálfu sér andi þess stjórnmálaflokks sem hann starfar með. Hann nálgast alltaf hlutina með neikvæðum formerkjum og sér ógn og skelfingu alls staðar og þess vegna sé best að gera helst ekki neitt. Þetta er mín upplifun. En ég er viss um að hv. þm. upplifir það með öðrum hætti.

Ég er ekki sammála því sem margir af þessum haukum eru að segja, t.d. þegar verið er að tala um það að fara inn í Sýrland og fara inn í Írak. Ég tel það skelfilegan og óábyrgan málflutning. En ég er hins vegar sammála því að það var nauðsynlegt að koma Saddam Hussein frá og taldi að það væru ekki önnur ráð til þess en til var gripið. Ég hef ekki heyrt hvernig hv. þm. vildi koma þeim skelfilega manni frá, enda þegar verið er að tala um Írak, minnist hv. þm. aldrei á Saddam Hussein. Ég held að það sé ekki vegna þess að hv. þm. sé hrifinn af þeim manni, mér dettur það ekki í hug. En hann gagnrýnir ávallt það sem er gert en segir afskaplega lítið um hvað skuli gera.