Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:22:42 (1385)

2003-11-06 18:22:42# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., EKH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Einar Karl Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að heyra málflutning hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér. Í málflutningi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er nánast alltaf lögð áhersla á að það sem var gott í gær eigi að vera áfram. Það sem þeir voru á móti í gær, því eru þeir með í dag, þ.e. eins og kom hér fram áðan er hin gagnkvæma varnarskuldbinding NATO allt í einu orðin hlutur sem söknuður er að en var gagnrýndur af þeim í gær. Þannig er málflutningur þeirra alltaf með óbreyttu ástandi.

Hann heldur því fram að Bandaríkjamenn ráði öllu innan NATO en það er einu sinni þannig að hernaðarmáttur þeirra er slíkur að þegar þeir ákveða að nýta hann geta þeir það án þess að nokkur fái rönd við reist. Bandaríska hernaðarvélin er sú sterkasta í heimi og það er bara sú staðreynd sem við verðum að líta á.

Hins vegar eru innan NATO einmitt umræður í gangi og samstarf og eins og við höfum séð hefur oft tekist að breyta afstöðu Bandaríkjamanna með tímanum innan NATO og þróa nýjar hugmyndir, hafa temprandi áhrif á stefnu Bandaríkjastjórnar. Það er einmitt, eins og ég sagði áðan, kannski eitt mikilvægasta hlutverk NATO í dag að halda aftur af hernaðarstefnu Bandaríkjamanna, hafa áhrif á hana og hafa jákvæð áhrif á stefnu Rússlands og Bandaríkjanna á vettvangi NATO.