Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 18:24:52 (1386)

2003-11-06 18:24:52# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekkert nýtt að heyra þessa tóna: NATO hefur breytt um svip, þetta eru orðin umhverfisverndarsamtök, verndarsamtök sem eru að tína upp karamellubréf hér og þar um Evrópu, svona vinsamlegur snati.

Staðreyndin er sú að við erum ekki að tala fyrir óbreyttu ástandi. Við erum að tala fyrir breyttu ástandi. Það er hv. þm. Einar Karl Haraldsson sem talar fyrir óbreyttu ástandi, með fylgispekt okkar gagnvart þessu hernaðarbandalagi.

Ég bendi hins vegar á, og við höfum gert það, þær breytingar sem eru að verða innan NATO, hvernig bandalagið er að endurskilgreina hlutverk sitt. Í stað þess að bregðast við árás á einstök ríki er það að færa út kvíarnar í reynd og lýsa yfir vilja til að taka þátt í fyrirbyggjandi aðgerðum. Ég er að benda á --- og mér finnst þetta bara vera málefnaleg umræða --- hvað þurfi að gera til að koma í veg fyrir ógn í framtíðinni. Ef sá sem skilgreinir hættuna, þessa ógn, er stærsta hernaðarveldi heimsins, er þá ekki líklegt að við gerumst þessu hernaðarveldi einum of handgengin, ekki síst þegar hér situr ríkisstjórn sem sýnir ekki nokkra einustu tilburði til sjálfstæðrar hugsunar, til gagnrýninnar hugsunar, en fylgir stefnunni frá Washington í einu og öllu? Finnst hv. þm. Einari Karli Haraldssyni, þingmanni Samf., virkilega engin ástæða til að staldra hér við?

Ég fylgist með umræðunni á þjóðþingum í Evrópu (Forseti hringir.) og mér finnast margir samflokksmenn hans þar vera að taka undir þau sjónarmið sem ég held fram.

(Forseti (JBjart): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gæta að tímamörkum í andsvari.)