Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 15:04:25 (1389)

2003-11-10 15:04:25# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. meiri hluta DrH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum frá meiri hluta landbn.

Breytingartillögurnar hljóða svo, með leyfi forseta:

,,1. Við 4. gr. Í stað orðanna ,,gildir 2. mgr.`` í 1. mgr. komi: gilda 2. og 3. mgr.

2. Við 6. gr.

a. Á eftir orðunum ,,óháð þroskastigi`` í fyrri málslið 1. efnismgr. komi: þ.m.t. hrogn og svil.

b. Í stað orðanna ,,reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur`` í lok fyrri málsliðar 1. efnismgr. komi: reglugerða sem landbúnaðarráðherra setur að fengnum umsögnum embættis yfirdýralæknis, fisksjúkdómanefndar, Veiðimálastofnunar og erfðanefndar landbúnaðarins.

Herra forseti. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir hlutverki erfðanefndar. Í 16. gr. búnaðarlaga segir um erfðanefnd landbúnaðarins, með leyfi forseta:

,,Landbúnaðarráðherra skipar sjö menn og jafnmarga til vara í erfðanefnd landbúnaðarins að fengnum tilnefningum frá Bændasamtökum Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Skógrækt ríkisins, Veiðimálastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.

Helstu verkefni nefndarinnar eru:

a. að annast samráð innan lands um varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði,

b. að hvetja til rannsókna á sviði erfðaauðlinda í landbúnaði,

c. að stuðla að miðlun þekkingar um erfðaauðlindir og gildi þeirra, jafnt með kennslu sem upplýsingagjöf til almennings,

d. að veita hagsmunaaðilum og stjórnvöldum ráðgjöf um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði,

e. að annast samskipti við erlenda aðila á þessu sviði í samstarfi við tengiliði Íslands hjá alþjóðastofnunum.``

Mikið var rætt hvort þarna ætti Umhverfisstofnun að koma inn. Að áliti meiri hluta landbn. er svo ekki. En 1. gr. laga um innflutning dýra hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Áður en leyfi er veitt til innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum tegunda sem hér eru fyrir skal landbúnaðarráðherra afla umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og sérfræðinganefndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.``

Við 2. umr. bættum við erfðanefndinni þarna við líka. Veiðimálastofnun fer með málefni sem heyra undir landbrh., Umhverfisstofnun þau málefni sem heyra undir umhvrh. og Hafrannsóknastofnun málefni á vegum sjútvrh. Svo bættum við líka fisksjúkdómanefndinni við.

Herra forseti. Ég tel því að nú verði þessi lög allvel úr garði gjörð.