Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 15:08:21 (1390)

2003-11-10 15:08:21# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum hefur fengið nokkuð viðamikla meðferð í hv. landbn. og m.a. kom nefndin sérstaklega saman í morgun til þess að ræða enn einar brtt. við það staðfestingarfrv. sem lagt var fyrir þingið til þess að staðfesta bráðabirgðalög frá því í sumar. Ég vil segja það í upphafi að þær breytingar sem landbn. hefur gert á málinu hafa allar verið til bóta og kannski hefur það sem haft var á orði fyrr í umræðunni, þ.e. við 2. umr., að einhverju marki sett kút og kork á hæstv. landbrh. svo hann ekki sykki til botns. Það var haft á orði í morgun í landbn. að nú væri verið að setja sundgleraugu á hann líka til þess að tryggja enn frekar að ekki fari illa fyrir hæstv. landbrh.

Ég vil hins vegar ítreka þá afstöðu sem minni hlutinn hefur alla tíð haft í þessari umræðu, þ.e. að við höfum talið skynsamlegra að fara leið verndar gagnvart umhverfinu og náttúrunni í stað þess að reyna að koma í veg fyrir innflutning með tæknilegum viðskiptahindrunum sem byggja fyrst og fremst á því að vísa í fisksjúkdóma til þess að koma í veg fyrir innflutning, þ.e. að teygja ákvæði og möguleika sem þar kunna að búa að baki í allar þær áttir sem um ræðir.

Virðulegi forseti. Ég ætla einnig að mæla fyrir brtt. minni hlutans við þetta frv. sem fyrir liggur og er nú til afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Við teljum að breytingin sem við leggjum til mundi tryggja að lögin væru þannig úr garði gerð að við þyrftum ekki að fá athugasemdir við þá afgreiðslu sem þingið sendir frá sér. Allur minni hluti landbn. stendur að þessari brtt., þ.e. auk mín hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson. Þetta er brtt. við 6. gr. frv. sem upphaflega var lagt fram. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,a. Við fyrri málslið 1. efnismgr. bætist: nema önnur lög, svo sem náttúruverndarlög, og alþjóðasamningar sem Ísland er skuldbundið af banni slíkan innflutning vegna sjónarmiða um verndun tegunda, stofna, vistgerða eða vistkerfa.

b. 2. efnismgr. falli brott.``

Virðulegur forseti. Við teljum að með því að fara þá leið sem hér er lögð til verði tryggt að þau markmið náist að tryggja vernd íslenskrar náttúru. Leiðin sem við leggjum til er í samræmi við EES-samninginn að okkar mati, þ.e. 13. gr. hans, og einnig í samræmi við 1. mgr. 2. gr. þeirrar tilskipunar sem hér er ætlunin að lögleiða, þ.e. nr. 91/67/EBE.

Af því að hér hefur verið talað dálítið um útbúnað sem tengist sundi og því að bjarga sér þá teljum við að með því að samþykkja þá leið sem við leggjum til væri hæstv. landbrh. kominn í björgunarbát og þyrfti ekki að hafa frekari áhyggjur af öðrum búnaði í sundlauginni. Við gerum þetta fyrst og fremst til þess að tryggja að hið háa Alþingi standi frammi fyrir þeim möguleika að afgreiða þetta mál á þennan hátt og vonumst til þess að Alþingi samþykki þá leið sem við leggjum til.

Við gerum okkur hins vegar fulla grein fyrir því að ef þessi leið yrði farin þá yrði ábyrgð hæstv. umhvrh. mun meiri við afgreiðslu á þessum málum en nú er og hæstv. umhvrh. yrði væntanlega að hraða afgreiðslu eða frágangi á þeirri reglugerð sem hæstv. ráðherra sagði okkur hér á fimmtudaginn að væri í smíðum og byggði á ákvæðum náttúruverndarlaga. Ég vona svo sannarlega að sú vinna sé langt komin því að mjög mikilvægt er að hún gangi hratt fyrir sig þó að einnig verði að segja það eins og það er að ekki hefur verið mikill hraði á þessari vinnu frá því að náttúruverndarlögin voru samþykkt 1999.

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða og sú vinna sem fram hefur farið vegna þessa tiltekna máls hafi dregið mjög skýrt fram hve mikla hagsmuni þjóðin hefur af því að tryggja vernd og viðgang villtra laxastofna. Ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir því áður en þessi umræða fór fram hve mikilvægir þessir hagsmunir eru. Þó það sé kannski ekki stórt innlegg í málið þá eru t.d. 4.300 aðilar skráðir fyrir laxveiðiréttindum hringinn í kringum landið og þessi réttindi eru skráð á 1.860 lögbýli. Hér er því um mikla hagsmuni að ræða fyrir hinar dreifðu byggðir og miklu máli skiptir að við séum ekki að setja þessa hluti í uppnám að ástæðulausu.

[15:15]

Mig langar, virðulegi forseti, að vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær þar sem vitnað er til rannsókna sem fram fóru í Noregi um sambúð og sambýli villtra laxa og eldislaxa. Þó að þetta mál sé miklu víðfeðmara en svo að það fjalli einungis um laxinn hefur sá hluti verið dreginn fram sem sá sem mestir hagsmunir lúta að. Þessi grein er eftir Yngva Óttarsson sem titlar sig verkfræðing og langar mig að lesa örlítið upp úr henni. Þar segir, með leyfi forseta, og er þá vitnað til niðurstaðna rannsóknarinnar:

,,Bæði eldislaxinn og villti laxinn dreifðust á svipaðan hátt um ána fyrir hrygningu haustið 1993.`` --- Þess skal getið að þar var blandað saman 22 norskum eldislöxum og 17 villtum löxum sem voru settir saman í á og fylgst vandlega með. --- ,,Eldishrygnur reyndust byrja hrygningu að meðaltali hálfum mánuði fyrr en hrygnur af villta stofninum. Strax að lokinni hrygningu byrjuðu hængar að frjóvga hrognin og kom þá í ljós að eldishængarnir náðu aðeins að frjóvga fjórðung af því sem villtu hængarnir frjóvguðu. Hrogn villtu hrygnanna reyndust einnig mun lífvænlegri en eldishrygnanna. Þannig lifði aðeins þriðjungur hrogna eldishrygna í samanburði við hrogn af villta stofninum. Greinilegt var að hrygning og frjóvgun hjá eldislöxunum skilaði mun verri árangri en hjá villta laxastofninum. Jafnframt kom í ljós að kerfisbundin blöndun varð milli eldishrygna og villtra hænga þar sem eldishrygnurnar hrygndu snemma og eldishængarnir voru svo gott sem ófærir um að frjóvga hrognin.

Afleiðingin varð sú að af þeim seiðum sem klöktust út voru tveir þriðju af hreinum villtum uppruna og afgangurinn að mestu leyti blendingar eldishrygna og villtra hænga.

Eftir að seiðin komust á legg var ekki teljandi munur á lífslíkum, heimtum eða fæðu seiðanna hver sem uppruni þeirra var. En fyrst og fremst vegna vandamála við hrygningu og frjóvgun hrogna var viðgangur eldislaxanna aðeins 16% af því sem var hjá villta stofninum. Það þýðir að ef 100 laxar af villtum uppruna fæddu af sér 100 fullvaxin afkvæmi næðu 100 eldislaxar aðeins að fæða af sér 16 fullvaxin afkvæmi í villtri náttúru.``

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

,,Af þessu leiðir að ef verulegt og viðvarandi innflæði eldislaxa er úr eldiskvíum inn í villta stofna munu villtu stofnarnir á nokkrum kynslóðum mengast erfðafræðilega þannig að blandaðir stofnar eldislaxa og villtra laxa í ánum verða ekki sjálfbærir. Ef innflæði eldislaxa síðan hættir eftir að veruleg erfðafræðileg blöndun hefur átt sér stað mun lax endanlega hverfa úr ánum.

Í Noregi hefur hlutfall eldislaxa á undanförnum árum verið allt að 90% í einstökum ám. Í þessari rannsókn sem hér er rakin`` --- og ég hef hér rakið niðurstöðuna --- ,,var hlutfallið 56% eldislax og 44% villtur lax. Rannsóknin sýnir að með árlegu innflæði eldislaxa verða fljótt verulegar breytingar á samsetningu erfðamengis villta stofnsins þannig að hann verður á nokkrum kynslóðum að meginuppistöðu af eldisuppruna. Þar með verður sá stofn ófær um að viðhalda sér til frambúðar í náttúrulegu umhverfi.``

Ekki ætla ég að halda því fram að ég sé þess umkominn að fella dóma um það sem hefur verið vitað en hitt er alveg ljóst að hér eru dregin fram mjög sterk rök og sterkar vísbendingar um að með því sem við erum að gera hér setjum við mikla hagsmuni í uppnám ef ekki tekst að tryggja vernd villtra laxastofna. Ég held að mikilvægt sé að draga þetta inn í umræðuna, virðulegi forseti, til að vekja athygli á því hversu miklir hagsmunir eru í húfi.

Nú held ég því ekki fram að hæstv. ráðherra ætli að fara að leyfa hér endalausan innflutning til að setja þessa hagsmuni í uppnám. Við segjum hins vegar að sú leið sem hefur verið valin sé þannig úr garði gerð að við efumst mjög um að hún dugi til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Það er kjarninn í því sem við erum að setja hér fram og ég held, virðulegi forseti, að minni hlutinn í landbn. og hér á þinginu og hæstv. landbrh. séu sammála um þau markmið sem að er stefnt. Okkur greinir mjög á um leiðir og ég rakti það í fyrri ræðu minni að ég óttast að ástæðan ... Ánægjulegt að vita til þess að hæstv. landbrh. er enn þá á lífi. --- En ég óttast, virðulegi forseti, að sú leið sem hér er verið að leggja til muni ekki duga. (Landbrh.: ... Jón Baldvin að koma heim til að kenna þeim á EES-samninginn.)

Það er mikið til í því, virðulegi forseti, það hefði ekki verið amalegt að fá núverandi sendiherra í Helsinki til að koma hingað og halda námskeið um EES-samninginn í landbrn. Það hefði án efa gert það að verkum að við hefðum fengið aðrar hugmyndir fram.

Það sem ég vildi þó segja, virðulegi forseti, er að ég óttast að ástæðan fyrir því að þessi leið er farin sé veruleg valdatogstreita milli ráðuneyta og lítið sem ekkert samstarf. Það liggur fyrir hér skrifleg yfirlýsing frá ráðuneytisstjóra umhvrn. um að umhvrn. hafi ekkert komið að þessu máli. Það finnst mér mjög alvarlegt ef niðurstaðan er sú að það er verið að setja í uppnám mikla hagsmuni, kannski fyrst og fremst sökum þess að þessi tvö ráðuneyti ná ekki að hafa með sér það samstarf sem nauðsynlegt er í því tilviki og vegna þess máls sem við höfum verið að ræða.

Það er vitaskuld afar sérstakt, virðulegi forseti, að við 3. umr. skuli sett fram enn ein brtt. frá meiri hlutanum sem breytir fyrri brtt. sem þegar hafa komið fram til breytingar á bráðabirgðalögum sem sett voru með hraði í sumar til þess að bjarga hagsmunum sem við frekari skoðun reyndust kannski ekki vera þeir hagsmunir sem gefið var í skyn í upphafi.

Virðulegi forseti. Ég hef mælt fyrir þessari brtt. sem við stöndum öll að. Við höfum dregið mjög skýrt fram í þessari umræðu hversu miklir hagsmunir eru í húfi og nauðsyn þess að tryggja að þeir séu ekki settir í óþarfauppnám. Við höfum reynt af fremsta megni, eins og hlutverk stjórnarandstöðunnar er, að leiðbeina hæstv. landbrh. í þessu máli. Það hefur náðst nokkur árangur í því eins og sjá má af öllum þeim brtt. sem fram hafa komið, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi ekki viljað taka undir þau sjónarmið sem við settum fram og þá leið sem við leggjum til.

En við vonumst til þess, virðulegi forseti, að meiri hluti þingsins taki nú fram fyrir hendurnar á hæstv. landbrh. og samþykki þær hugmyndir sem við höfum lagt fram.