Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 15:44:55 (1393)

2003-11-10 15:44:55# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. bar fram spurningar í ágætri ræðu. Sú skoðun kemur bæði fram hjá Vinstri grænum og Frjálsl. að fiskeldi eigi bara að vera strandeldi eða landeldi. Það er mjög heiðarleg skoðun. En ákvörðun um það er bara langt í fortíðinni tekin því fiskur af erlendum uppruna fór hér í sjókvíaeldi, bæði í Lón í Kelduhverfi, Eyjafjörð og Austfirði á níunda áratugnum og eftir 1990. Sú ákvörðun var tekin og eins og hér hefur verið rakið segja fiskeldismenn að ekki gangi annað upp en fara í sjókvíaeldi til þess að vera samkeppnisfærir.

Þetta er mjög heiðarleg afstaða hjá báðum þessum flokkum. Þeir eru ekkert að leika sér í málinu. Þeir eru ekkert að slá úr og í. Þeir hafa þessa pólitísku skoðun og hún hefði alveg getað komið til greina að mínu viti í upphafi fiskeldis. En niðurstaðan er bara allt önnur. Ég hef rakið það hvernig ég síðan í upphafi míns ferils sem landbrh. lokaði heilu fjörðunum fyrir fiskeldi þannig að nú eru bara opnir djúpir langir firðir á Austfjörðum og Vestfjörðum og strangar reglur settar.

Hv. þm. spyr um meginregluna. Ég stend í rauninni bara í þeim sporum, sem Samfylkingin hefur ekki áttað sig á af því að hún er búin að gleyma því að hún var í Alþfl., að ég er að uppfylla tilskipun sem gerð var í samningum um EES-samninginn, þjóðréttarlega tilskipun. Ég hef sett alla mína fyrirvara til að verjast því að hér komi inn hættulegir stofnar með öllum boðum og bönnum sem við eigum og tækjum og tólum og landbn. hefur með landbrn. unnið mjög heiðarlega að því og þakka ég fyrir það. En það er í rauninni staðan sem ég stend frammi fyrir.