Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 15:47:13 (1394)

2003-11-10 15:47:13# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég met hæstv. landbrh. alveg fyrir það að hann skuli láta í ljós þær tilfinningar sínar vil ég segja að hann hefði mögulega viljað reisa einhverjar skorður hér á árum áður en það sé ekki í valdi hans núna. Ég held nefnilega að hæstv. landbrh. sé miklu meiri verndarsinni en gerðir hans oft gefa til kynna.

Hæstv. forseti. Það eru engin mannanna verk svo merkileg að ekki megi endurskoða þau. Og engar þær ákvarðanir sem við tökum hér í þessum sölum svo merkilegar að ekki megi endurskoða þær.

Við værum hér menn að meiri ef við viðurkenndum að ákvarðanir sem teknar voru á árum áður þegar fiskeldið var upphaflega leyft hafi verið rangar og þær ógni stofninum okkar, því við vitum auðvitað meira um þessa hluti núna en við vissum fyrir tíu árum.

Varðandi undanþáguna frá tilskipuninni hefur komið í ljós í umfjöllun nefndanna að ekki var látið reyna á umhverfisþáttinn. Ekki var látið reyna á í viðræðunum úti í Brussel samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika, Bernarsamninginn um vernd tegundanna. Við vitum núna að enn þá er sóknarfæri í málinu með því að sækja þetta á grundvelli umhverfissjónarmiða.