Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 15:51:04 (1396)

2003-11-10 15:51:04# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Allar þær skorður sem hæstv. landbrh. hefur sett og hv. landbn. hefur sett með brtt. sínum nægja ekki til þess að varna því að lax sleppi úr kvíum. Lax sem sleppur úr kvíum gengur upp í laxveiðiár. Við erum að berja höfðinu við steininn á meðan við viðurkennum ekki þá staðreynd. Laxinn les ekki lög. Laxinn fer bara þangað sem eðli hans býður honum. Lax gengur upp í laxveiðiár. Ef við viljum ekki lax af erlendum stofni í laxveiðiárnar okkar, þá látum við hann ekki í kvíar rétt undan ströndum landsins. Og það er alveg sama hvar. Það skiptir engu máli hversu mörgum fjörðum hæstv. landbrh. lokar. Laxinn les ekki lokunarskiltin.

Við erum þess vegna að fjalla um þá spurningu hvort varnirnar sem verið er að reisa séu nægar eða ekki. Og ég fullyrði að þær eru ekki nægar. Ég fullyrði líka að við höfum í alþjóðlegum samningum sem við erum aðilar að tæki til þess að reisa skorður sem duga, þ.e. skorður sem mundu banna eldi af erlendum stofnum í sjókvíum við landið.