Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 16:25:40 (1399)

2003-11-10 16:25:40# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[16:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú fyrst létta þeim áhyggjum af hæstv. landbrh. að það stóð ekki til að stoppa mig upp strax. Ég held að þetta hafi frekar verið svona umsókn um að fá kannski að gera það þegar fram liðu tímar og það hefði ekki í för með sér neina sérstaka röskun á mínum högum sem slíkum, þ.e. þegar ég væri af dögum.

Ég tel mig ekki hafa lamið á hæstv. landbrh. einum, eða meira en efni standa til. Var það ekki einmitt ég sem var hér áðan að nefna til sögunnar þá ábyrgð sem aðrir bera, umhvrn., ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn allur? Vegna þess að það er auðvitað þannig að menn bera ábyrgð á axarsköftum sinna samstarfsmanna ef þeir eru saman í ríkisstjórn eða standa að meirihlutastjórn, þannig er það.

Ég held að það þoli algerlega skoðun allt sem aðhafst var í þessum efnum í minni landbúnaðarráðherratíð. Ég tók við þeim arfi að hinn norski stofn var kominn inn í landið og kominn í eldi og ræktun á einum tveimur stöðum, ætli það hafi ekki verið bæði í Lóni í Kelduhverfi og á Stað í Grindavík? Það sem ávannst var að þessar reglur voru settar og eftir þeim var farið í minni tíð. Ég hef aldrei heyrt neitt annað en að norski laxinn hafi hvergi verið fluttur til staðar sem ekki samrýmdist því heiðursmannasamkomulagi sem var niðurstaða starfshóps á haustdögum 1988, þann tíma sem ég var í ráðuneytinu og ég held lengur. Þó að einhverjir styrkir hafi gengið til áframhaldandi ræktunar eða kynbóta á eldisstofnum, ég held bæði innlendum og erlendum, var auðvitað hluti af því að menn höfðu þá trú á því að fiskeldi í landstöðvum gæti átt möguleika. Það var að berjast fyrir lífi sínu þessi ár og eitt af því sem stóð mönnum fyrir þrifum í eldinu var ótímabær kynþroski hins íslenska eldisstofns. Ef menn hefðu gert eins og Norðmenn að taka sinn eigin stofn eða stofna og ala þá og kynbæta hefði nú strax verið betri staða í málunum í dag. Menn hefðu þá ekki þurft að vera með þennan áhættuþátt undir að vera með beinlínis erlent erfðaefni.