Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 16:31:10 (1402)

2003-11-10 16:31:10# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. meiri hluta DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska formanni Vinstri grænna, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, til hamingju með landsþingið um helgina.

Ég vil gera athugasemd við ræðu hans áðan. Hann talaði um að þingið hefði hafnað frumvarpinu. Það kom einfaldlega aldrei til afgreiðslu. Það fór til umsagnar en við álitum of stuttan tíma frá því að það kom fram þar til þurfti að afgreiða það. Það fór til umsagnaraðila og fyrir þinginu og í hv. landbn. liggur fyrir mikið af gögnum sem við höfum farið yfir. Við töldum tímann nægan en svo reyndist ekki vera. Allir markaðir lokuðust og það varð að innleiða tilskipun nr. 91/67/EBE.

En ég vil taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem hann talar um vernd erfðaefna sem eru okkar auðlind. Ég er sammála því og ég hugsa að við séum það flest. Sú sem hér stendur hefur barist fyrir því að vernda íslensku kúna og vill ekki blanda hana öðrum kúakynjum. Ég tel það okkar auðlind að eiga okkar náttúrulegu erfðaefni og þess vegna setti landbn. í brtt. sínum þá stoð að hafa erfðanefnd landbúnaðarins inni í lögunum til stuðnings fyrir landbrh. þegar hann þarf að taka ákvarðanir.