Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:09:52 (1413)

2003-11-10 17:09:52# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Umræðan hér í dag og eins sú fyrir helgi þegar málið var rætt við 2. umr. hefur dregið mjög skýrt fram að það flan hæstv. landbrh. og ríkisstjórnarinnar í heild sinni í sumar að setja umrædd bráðabirgðalög er eitt allsherjarklúður. Hlutverk þingsins hefur alfarið verið að reyna að bjarga þessu klúðri enda hefur í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram varla einn einasti stjórnarþingmaður komið upp til þess að ræða málið og verja þetta, ef undan er skilin hv. þm. Drífa Hjartardóttir sem vegna embættisskyldu sinnar hefur haft það hlutverk að reyna að verja þessar gjörðir. Er hv. þm. vorkunn að hafa þurft að gera það. Þó má segja henni til hróss, og henni hefur verið hælt fyrr í umræðunni, að hv. þm. hefur þó gert það sem í hennar valdi hefur staðið til þess að setja tiltekin stoðtæki á hæstv. landbrh. svo hann sökkvi ekki alveg til botns.

Það sem hefur algerlega vantað í þessa umræðu er svarið við spurningunni um hvernig stóð á því að þessi bráðabirgðalög voru sett. Hvernig stóð á því í upphafi að ráðist var í þessa aðgerð? Engin skýr svör hafa komið fram. Hæstv. ráðherra hefur verið á algerum flótta frá þessu tiltekna máli. Hann hefur vísað til þess að lögleiða hafi þurft tiltekna tilskipun. Það hafði legið fyrir í eitt og hálft ár --- eitt og hálft ár --- í ráðuneytinu að lögleiða þurfti þessa tilskipun. Það lá einnig fyrir að þingmálið kom fyrir á Alþingi í mars sl. og þá hafnaði þingið málinu. Þingið hafnaði málinu vegna þess að þing hafnar þeim málum sem það afgreiðir ekki. Alþingi Íslendinga hafnaði málinu. Og þrátt fyrir að frekari bréf hafi komið frá Evrópusambandinu og ESA um að nauðsynlegt væri að lögleiða þá tilskipun sem er grunnurinn að þessu þá taldi hæstv. landbrh. enga ástæðu til að lögleiða þessa tilskipun á vorþinginu síðasta.

Það hafa því ekki komið fram nein sjónarmið sem réttlæta það að þeir miklu hagsmunir sem hér hafa verið kallaðir erfðagóss sveitanna séu settir í uppnám eins og hér hefur verið gert. Engin rök hafa komið fram.

Hæstv. landbrh. hefur verið spurður hvort veruleikinn sé sá að hann hafi ekki staðið í lappirnar þegar fulltrúar tveggja fyrirtækja komu og lýstu því yfir að það væri algerlega nauðsynlegt vegna hagsmuna sinna að grípa til þessara aðgerða. Hann hefur ekki svarað þeirri spurningu, hæstv. ráðherra. En það eru einu sjónarmiðin sem hægt er að tala um að hafi komið hér fram í umræðunni sem skýra af hverju þetta er gert.

Hæstv. landbrh. hefur einnig komið sér í sögubækur með þessari bráðabirgðalöggjöf. Ég held að þetta dæmi verði án efa notað í öllum lagadeildum landsins héðan í frá vegna þess að einnig hefur komið fram að hvergi í þingsögunni er að finna fordæmi þess að menn hafi gripið til bráðabirgðalagasetningar af jafnlitlu tilefni og raun ber vitni, hvergi. Þess vegna er ekki við nein fordæmi að styðjast þegar menn eru að reyna að bera þetta saman, ekki nokkur.

Ekki er nema von að hér í umræðunni hafi komið fram að menn óttast mjög að ef þetta verður viðurkennt sem löglegur gjörningur þá munum við sjá hin ólíkustu tilbrigði og stef koma frá hæstv. ráðherrum á þeim tíma sem þingið ekki situr. Vakin var athygli á því að við gætum átt von á lögum um umboðsmann hundsins og sjálfsagt gæti ýmislegt borist hingað í formi bráðabirgðalöggjafar ef þetta stenst.

Auðvitað hefur maður verulegar áhyggjur af ráðuneyti sem lætur sér til hugar koma að setja bráðabirðgalög. Á hinn bóginn má kannski líka segja það fullum fetum að þetta er náttúrlega á ábyrgð annarra í ríkisstjórninni. Vissulega hefðu aðrir ráðherrar átt að hafa vit fyrir hæstv. landbrh. Þetta átti aldrei að gerast.

[17:15]

Eftir stendur spurningin: Hvernig má það vera að svona klúður eigi sér stað, og hlutverk þingsins verði aðeins eitt, þ.e. að reyna að hysja buxurnar upp um hæstv. ráðherra? Á daginn kemur að vegna deilna um hvar völdin skulu liggja í málinu er ekki einu sinni haft samstarf við það fagráðuneyti sem ekki síður ætti að koma að málinu, sem er umhvrn. --- Þar mætir nú hæstv. landbrh. í salinn og ber að fagna því. --- Ekki nokkurt samstarf er haft við hæstv. umhvrh. vegna þessa tiltekna máls.

Ég veit ekki hvað veldur, virðulegi forseti. En eitt af því sem kemur upp í hugann er sú staðreynd að ljóst er að mikil keppni er í Framsfl. núna um það hverjir skuli halda sæti sínu, hverjir skuli halda ráðherrastól sínum og hverjir gera það ekki þegar líður á haustið. Vel má vera að þar liggi að einhverju leyti skýringin á því að þessir tveir hæstv. ráðherrar hafa ekki treyst sér í það samstarf sem þarf að vera og greinin hefur fyrir vikið þurft að líða fyrir þær deilur.

Ég vil ítreka af því hæstv. ráðherra er kominn í hús, að hæstv. ráðherra verður að skýra það fyrir þingheimi á skýran og einlægan hátt hvers vegna ráðist var í þessa bráðabirgðalöggjöf. Ekki hafa komið fram ein einustu rök frá hæstv. ráðherra, (Landbrh.: Jú, jú.) sem réttlæta það að setja þessa miklu hagsmuni sem hafa verið kallaðir erfðagóss sveitanna í uppnám af jafnlitlu tilefni og raun ber vitni. (Gripið fram í.) Ekki ein einustu rök hafa komið fram í málinu. Búið er að fara yfir það að þetta lá í eitt og hálft ár í ráðuneytinu. Búið er að fara yfir það að þingið kom saman eftir að síðasta varnaðarbréfið kom frá Brussel. Búið er að fara yfir alla þessa þætti. Það stendur ekki steinn yfir steini. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa eitthvað uppi í erminni á lokaspretti þessarar umræðu, þó ekki væri nema til að reyna að lagfæra það aðeins hvernig hann kemur út úr þessari umræðu. Því ef ekki koma fram frekari rök, þá hljóta efasemdir mjög að vaxa um að ráðuneytið og hæstv. ráðherra sé hæfur til að sinna því hlutverki sem hann hefur. Það hljóta að vakna upp verulegar efasemdir um það.

Þá verður einnig að fara yfir, virðulegur forseti, að nú liggja fyrir leyfi upp undir 30.000 tonn að því er varðar laxeldi. Ef sami fjöldi --- og ætla ég þá ekki að vísa til svars sem hæstv. ráðherra veitti hv. þm. Jóni Gunnarssyni um hvað orðið hafi af fiski í sjókvíum landsins. Ef við tökum sömu prósentutölu og er hjá Norðmönnum, þá þýðir það að 60.000 fiskar muni sleppa úr kvíum, þ.e. 1%. Það þýðir að 60.000 fiskar ef við miðum við 1% sem er sama hlutfall og í Noregi muni sleppa úr kvíum. Og það er jafnvel stærri tala en allur villti laxastofninn. Bara svo menn geri sér í hugarlund hve miklir hagsmunir eru hér í húfi og hvaða hagsmunum er verið að tefla í tvísýnu.

Þegar þetta er allt saman haft í huga hljóta menn að spyrja og ítreka þá spurningu: Hvernig verður bráðabirgðalagasetningin frá því í sumar skýrð sem án efa á eftir, eins og ég sagði í ræðu minni áður en hæstv. landbrh. gekk í hús, að koma honum í sögubækur sem vísað og vitnað verður til í öllum lagadeildum landsins um hvernig á ekki að fara með bráðabirgðalagasetningarvaldið.

Þá vildi ég líka nefna að hæstv. ráðherra hefur verið ódeigur við að halda því fram að heimsathygli hafi vakið að hæstv. ráðherra hafi ákveðið að fiskeldi skuli ekki fara fram á tilteknum svæðum. Ég held að nauðsynlegt sé að upplýsa það að fyrir löngu og víða hafa verið teknar ákvarðanir um að friða tiltekin svæði. Þannig að það er ekkert nýtt í þessu þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðherra.

Ég vitnaði til greinar fyrr í dag sem rituð var í Morgunblaðið í gær. Þar er því haldið fram að þeir laxar sem hugsanlega kunna að sleppa úr fiskeldinu muni ekki fara til Færeyja heldur muni straumar bera þá réttsælis um landið. Nú ætla ég ekki að þykjast hafa vit á því hvernig þetta gerist, en hins vegar virðist mér að sú grein sem þar er rituð sé sett saman af verulegri þekkingu og ekki sé ástæða til að draga í efa það sem þar er fullyrt. En það þýðir þá að þeir laxar sem sleppa muni án efa berast í þær ár sem við nú viljum vernda.

Það er einnig annað sem ég vil, virðulegi forseti, vekja athygli á og sem er mjög miður, að vegna þessa klúðurs hæstv. ráðherra frá því í sumar sem þingið er núna að reyna að bjarga þá hefur umræðan eiginlega spunnist í þann farveg að hér sé um að ræða hagsmuni sem ekki geti farið saman. Í raun sé verið að taka afstöðu með einni greininni á móti annarri. Vissulega er það ekki hugmyndin með umræðunni en vegna þess hversu erfitt hefur verið að leysa úr því klúðri sem hæstv. ráðherra stóð fyrir í sumar, og ríkisstjórnin öll ber ábyrgð á, þá hefur umræðan farið í þennan farveg og það er mjög slæmt. Við vitum öll sem hér erum inni hve mikilvægt það er að efla atvinnulíf á landsbyggðinni og fiskeldi er eitt tækifærið hvað það varðar.

Ég vil, virðulegi forseti, einnig gera frekari grein fyrir þeirri tillögu sem minni hluti landbn. hefur lagt fram, en vitaskuld felst efnislega í henni, úr því að stjórnmálasamband er svona lítið milli hæstv. landbrh. og hæstv. umhvrh., að verið er að tryggja að hæstv. umhvrh. komi að því að taka ákvörðun um innflutning dýra, verið er að tryggja það. Að sama skapi er verið að tryggja að þeir alþjóðasamningar sem varða vernd og viðgang náttúrunnar, að til þeirra sé hægt að vísa og lögfesta þær forsendur sem menn geta vitnað til þegar og ef nauðsynlegt reynist að vísa til þeirra.

Sú tillaga gengur miklum mun lengra og í reynd færir okkur í þann farveg sem við viljum hafa þessi mál og í samræmi við það sem umhverfisráðherra Evrópusambandsins, eins og nefnt hefur verið hér, hefur lagt til, þ.e. að fara umhverfisleið, náttúruverndarleið í stað þess að fara þá tæknilegu viðskiptahindrunarleið sem byggir alfarið eða svo til alfarið á þeim rökum að koma í veg fyrir að fisksjúkdómar berist til landsins.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hæstv. landbrh. hefur varanlega tryggt sess sinn í sögubókum. Ég átti ekki von á að hæstv. ráðherra mundi tryggja sig svona tryggilega í sögubókum er lúta að lögfræði. Ég verð að játa að það kom mér verulega á óvart. Ég átti von á að hæstv. ráðherra mundi einhvers staðar vinna þau afrek að hans yrði minnst, en að hans yrði minnst sérstaklega fyrir klúður í bráðabirgðalöggjöf er reyndar hlutur sem ég átti ekki endilega von á.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að mikilvægt er áður en þessari umræðu lýkur að hæstv. ráðherra segi satt frá og í einlægni, (Landbrh.: Búinn að því.) --- í einlægni (Landbrh.: Ég er búinn að því.) hvað gerði það að verkum að hæstv. ráðherra fór umrædda leið. Búið er að fara yfir öll sjónarmið sem hæstv. ráðherra hefur sett fram. Þar stendur ekki steinn yfir steini. Það hljóta að liggja einhver sjónarmið sem hæstv. ráðherra situr á og hefur ekki viljað upplýsa okkur aðra hv. þm. um sem gera það að verkum að réttlæta megi þennan gjörning. Ef ekki, þá standa eftir, virðulegi forseti, og munu örugglega ört vaxa efasemdir um hæfi landbrn. til að sinna hlutverki sínu. Það verður einfaldlega þannig.

Ég trúi því og treysti að hæstv. ráðherra komi hér upp í umræðunni og upplýsi okkur um þau leyndu sjónarmið sem við höfum ekki komið auga á þrátt fyrir talsverða yfirlegu sem gerir það að verkum og skýrir út að hæstv. ráðherra er líklega búinn að festa sig varanlega í sessi í lagabókum landsmanna.