Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:29:13 (1415)

2003-11-10 17:29:13# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:29]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. kom hér upp, hélt því fram að málflutningurinn væri svartur og hvítur og byggði á kjaftsögum. Ég verð að játa ég beið spenntur eftir framhaldinu. Ég beið spenntur eftir því að hæstv. ráðherra mundi útskýra kannski hvað í þeim fullyrðingum hans fælist. (Gripið fram í: Hann gerði það.) Það kom ekkert, ekki nokkur skapaður hlutur. Ekki neitt.

Í hverju felst þessi svarti og hvíti málflutningur? Hvar hefur verið vitnað til kjaftasagna? Þetta verður hæstv. ráðherra að skýra miklu betur, annars verður hann ómerkur orða sinna.

Hvað varðar þjóðréttarlegu spurninguna, þá hafði hún legið fyrir í eitt og hálft ár. Hún lá einnig fyrir áður en þing kom saman í vor öðru sinni, eftir að þingið hafði hafnað frv. sem kom fram í mars. Þjóðréttarlegu skuldbindingarnar lágu fyrir fyrir löngu síðan. Þær réttlæta ekki þessa bráðabirgðalagasetningu. Það er langur vegur frá því. Ef svona mikið hefur legið við, þá gat hæstv. ráðherra verið búinn að leggja þetta fram fyrir löngu.

Eftir stendur, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hefur ekki enn komið fram með nokkur rök sem réttlæta það að gripið var til þessara aðgerða í sumar. Ekki ein einustu rök sem halda nokkru.