Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:35:48 (1418)

2003-11-10 17:35:48# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með áríðandi spurningu til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Þingmaðurinn hefur ítrekað nefnt vorþingið. Hann vísar þar til þess að nýkjörið þing kom saman 26. maí og þingmenn sátu hér í tvo daga. Það hefur komið fram í ræðu hans áður og nú upplýst að síðasta bréf frá Eftirlitsstofnun EFTA kom í ráðuneytið í apríl sl. Þingið sat í tvo daga og hefði að sjálfsögðu getað setið lengur. Bráðabirgðalög voru sett 1. júlí, mánuði síðar. Ég hlýt að spyrja: Kom þetta fram í landbn. þegar umfjöllun stóð yfir um bráðabirgðalögin, og hvaða skýring kom þar fram um að málið skyldi ekki berast inn í þingið, þegar það kom saman, í stað þessa neyðarbrauðs að setja bráðabirgðalög? Ég hlýt að bera fram þessa spurningu í lok umræðunnar, til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, þar sem ég hef hlýtt hér á spurningar, svör og andsvör, og ekkert kemur fram um þetta í máli hv. landbrh.