Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:37:23 (1419)

2003-11-10 17:37:23# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni er ljóst að hv. landbn. vann mikla vinnu til þess að reyna að skýra það sem var á ferðinni í sumar. Eitt af því sem hún gerði var að reyna að fá útskýringar á því hvenær þessi bráðanauðsyn varð til. Þá kom á daginn að fjögur bréf höfðu borist ráðuneytinu frá ESA þess efnis að lögleiða skyldi tilskipunina. Síðasta bréfið barst í apríl sl., þ.e. fyrir kosningar og áður en þing kom saman í sumar. Af þessum sökum, virðulegi forseti, hefur vakið mikla furðu að málið skyldi ekki tekið fyrir á vorþinginu. Það hefur verið dregið fram með mjög skýrum hætti að engar skýringar hafa komið fram. Það komu engar skýringar fram í landbn., enda vart hægt að ætlast til þess þar sem hæstv. landbrh. situr ekki í landbn., en hefði kannski gott af því að sitja þá fundi annað slagið, það var því enginn til þess að skýra þetta út, en nefndin kallaði þessar upplýsingar fram og þar kom mjög skýrt fram að síðustu varnaðarorð ESA voru í apríl sl. Þrátt fyrir það kom frv. ekki fyrir þingið í vor og enginn hefur eiginlega fært rök að því eða útskýrt af hverju það var ekki gert.

Mér er bæði ljúft og skylt að reyna að svara þessari spurningu, en á hins vegar erfitt með það.