Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:39:51 (1421)

2003-11-10 17:39:51# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég bar upp tvær spurningar í fyrri ræðu minni. Þá var hæstv. landbrh. ekki við. Fyrst hann er kominn í salinn finnst mér rétt að bera upp spurningarnar á ný og á ekki von á öðru en hæstv. landbrh. geti veitt góð svör.

Fyrri spurningin er á þá leið: Hvernig mun það verða tryggt að veiðiréttareigendur fái bætur ef illa fer og innfluttur lax skaðar lífríki ánna og eyðir hugsanlega náttúrulegum stofnum í ánum? Það mun auðvitað koma sér mjög illa fyrir veiðiréttareigendur og þeir bera mikinn fjárhagslegan skaða af því. Hætta er á því að þeir sem stunda fiskeldi séu ekki borgunarmenn fyrir þeim skaða.

Hin spurningin er: Nú hefur hæstv. landbrh. boðað mjög strangar reglur í fiskeldi. Þá reynir á það hvort hæstv. landbrh. treystir sjálfur reglunum. Mun hann treysta reglunum? Er hann tilbúinn til þess að taka pólitíska ábyrgð á því að lax af erlendum stofnum sleppi ekki í stórum stíl úr laxakvíum?

Það hefur komið fram að hæstv. landbrh. stendur með hæstv. umhvrh. í rjúpnamálinu. Þar sem ég er að bera upp þessar spurningar vona ég að hæstv. landbrh. svari þeim. En hæstv. umhvrh. hefur ekki enn svarað spurningum sem voru bornar upp 31. júlí bréflega og er það með ólíkindum. Ég á von á því að hæstv. landbrh. standi sig betur og svari þessum spurningum greiðlega.