Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:42:01 (1422)

2003-11-10 17:42:01# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef aldrei sagt að sá norski lax sem settur var hér ofan í sjóinn 1984, og síðar, geti ekki sloppið. Ég hef talið það skyldu mína sem landbrh. að standa í þeirri girðingarvinnu í kringum kvíaeldið, bæði kröfugerð á því hvernig það er byggt upp, að öll áhætta sé sem allra, allra minnst. Þau séu byggð upp eftir mjög ströngum og sterkum stöðlum og eftirlitið sé mikið og það hefur verið gert, eins og kvíaeldið í Mjóafirði, það hefur staðist og ekki sloppið út fiskur þar. Ég hef aldrei sagt að hann sleppi aldrei út. En okkur ber að lágmarka það eins og við getum og bregðast við á allan hátt, gerist það.

Þetta er skylda mín sem landbrh. og unnanda hinna frjálsu laxveiðiáa og íslensku stofna sem ég sannarlega er. Ég hef talið að mér sé það skylt, miðað við það hvernig staðan var þegar ég tók við sem landbrh., að þessar tvær auðlindir, annars vegar fiskeldið geti þróast hér undir ströngum skilyrðum og að sem mests öryggis sé gætt við laxveiðiárnar.

Ég ætla ekki að ræða hér þær bætur sem hv. þm. spyr um. Ég vona bara að hér muni enginn skaði eiga sér stað. Hér hefur verið umfangsmikið fiskeldi. Það er umfangsmikið fiskeldi sem hefur verið hér að hafa, í gangi fiskeldi líka á þurru landi og fiskeldi þar sem göngufiskar í margar laxveiðiár eru. Það er umfangsmikið fiskeldi. Það vita allir. Í mörgum og góðum ám er umtalsvert fiskeldi þar sem fiskinum er sleppt og hann gengur svo upp í árnar aftur og fer í aðrar. Þannig að það er fiskeldi hér í gangi í stórum stíl á mörgum sviðum.