Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:51:01 (1425)

2003-11-10 17:51:01# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á mörgum sviðum er skilningur hv. þm. í mjög góðu lagi. Ég fullvissa hann um það þó nú sé dálítið liðið á daginn að hann stendur föstum fótum.

Ég held að það sé alveg rétt sem hann sagði og best að hafa það þannig, að landbúnaðarráðherra er kominn í flotgalla í þessu máli. Hann hefur viljað fara í flotgallann sjálfur og honum hefur verið hjálpað enn frekar til þess af landbn. og þinginu. Þingið hefur stóru hlutverki að gegna í mínum huga. Ég fagna því að vera í flotgalla og ég álít að landbrh. á hverjum tíma þurfi, bæði í kringum þetta mál og allan innflutning, vegna hins hreina ástands sem hér ríkir og dýrmætu náttúru, að vera í flotgalla. Þannig að ég fagna því alfarið.

Ég vil segja við hv. þm. varðandi tillögurnar að ég tel að tillaga stjórnarandstöðunnar, minni hlutans í landbn., gangi ekki upp að því leyti að Veiðimálastofnun fer með lífríkið í vötnunum og ánum, eins og ég hef rakið, Hafrannsóknastofnun í hafinu og Náttúrufræðistofnun á þurru landi.

En sáttatillöguna sem Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga, viðurkenndi að væri mjög til bóta styð ég. Ég og hv. formaður landbn., Drífa Hjartardóttir, ræddum uppi í landbrn. í morgun við hann og varaformann Landssambands veiðifélaga. Þeir voru á því að sú tillaga sem þar kom fram, með fisksjúkdómanefndinni, væri mjög til bóta. Erfðanefnd landbúnaðarins kemur inn í ferlið. Í henni á sæti fulltrúi frá Náttúruverndarstofnun. Það er sú sáttatillaga sem hér liggur fyrir og ég styð þá brtt. heils hugar.