Lax- og silungsveiði o.fl.

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 17:53:54 (1427)

2003-11-10 17:53:54# 130. lþ. 23.2 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að setja þetta í skýran búning fyrir hv. þm. sem þekkir vel til sjávarins: Hvað mundi hann segja ef stórum hagsmunamálum sjávarútvegsins yrði vísað til landbn. og Bændasamtökin fengju umsagnarhlutverk í þeim o.s.frv.? Þetta er nokkuð skýrt í löggjöfinni frá Alþingi, hvaða stofnanir fara með hvaða hlutverk.

Auðvitað er Veiðimálastofnun fyrst og fremst vísindastofnun laxveiðiánna og vatnanna og fer með það hlutverk. Ég hef aldrei heyrt að Landssamband veiðifélaga, stangveiðimenn eða nokkrir aðrir efist um þá góðu þekkingu sem sú stofnun býr að. Það geri ég ekki heldur. Ég held þeir treysti henni fullkomlega og láti Veiðimálastofnun vinna mörg verk fyrir sig. Hún heyrir undir landbrn. og um það ríkir mikill friður og sátt.

Ég veit ekki hvernig hv. þm. vill hafa það en lögin eru oftast mjög skýr og segja til um hlutverk stofnana. En Náttúrufræðistofnun kemur að þessu máli gegnum erfðanefnd landbúnaðarins þar sem hún á sæti og fulltrúa, miðað við þá brtt. sem hér er.

Að lokum vil ég þakka hv. þm. og öðrum þingmönnum fyrir þessa umræðu sem hefur verið fróðleg. Margt hefur verið sagt satt og rétt. Margt hefur verið sagt á mörkum sannleikans og frjálslega farið með. En þetta hefur verið pólitísk umræða. Hana skil ég. Ég hef verið hér það lengi að ég skil pólitíska umræðu. Ég geri mér grein fyrir því að vegir stjórnmálamannsins eru ekki alltaf rannsakanlegir. En ég þakka.