Stofnun sædýrasafns

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 18:25:53 (1433)

2003-11-10 18:25:53# 130. lþ. 23.11 fundur 277. mál: #A sædýrasafn á höfuðborgarsvæðinu# þál., Flm. LMR (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Flm. (Lára Margrét Ragnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stofnun sædýrasafns á höfuðborgarsvæðinu. Flutningsmenn eru Lára Margrét Ragnarsdóttir og Gunnar Birgisson.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og hagkvæmni þess, með tilliti til ferðaþjónustu og almannafræðslu um lífríki hafsins, að byggt verði upp á höfuðborgarsvæðinu veglegt sædýrasafn sem yrði í senn lifandi fiskasafn og fróðleiksnáma um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna og umgengni um hafið.

Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis um kosti og galla slíks safns ásamt kostnaðarútreikningi og tillögu að mögulegri fjármögnun, rekstrarformi og eignarhaldi fyrir 1. september 2004.``

Hafið umlykur Ísland og Íslendingar eiga allt sitt undir gæðum þess. Lífsafkoma okkar hefur grundvallast á sjósókn. Sambýlið við hafið hefur ætíð mótað líf okkar og athafnir. Við erum þar af leiðandi fiskiþjóð og leiðandi þótt smá séum. Við erum fyrirmynd að mörgu leyti og við höfum vakið athygli fyrir virðingu okkar fyrir hafsins gæðum sem og í veiðitækni og verndun fiskstofna.

Þrátt fyrir það er ekki að finna hér á landi, ef frá eru talin sædýrasöfnin í Vestmannaeyjum og í Sandgerði, safn sem gerir skil þessum meginþætti í tilveru þjóðarinnar og því ævintýri sem lífið í hafinu umhverfis Ísland er. Ég vil þó minnast á að gerð var heiðarleg tilraun til slíks safns í Hafnarfirði forðum daga, en meira af vilja en mætti.

Lifandi sædýrasöfn eru vinsæl um allan heim og höfða til breiðs hóps, ekki síst okkar landkrabbanna. Vegna fjarlægðar flestra barna í þéttbýli frá sjávarútvegi og lífsreynslu þeirra sem búa við hafið er brýn nauðsyn á að þeim sé gefinn kostur á að kynna sér hvað hafið gefur okkur og þekkja þann grundvöll sem Íslendingar byggja á. Því er löngu tímabært að koma á fót myndarlegu sædýrasafni í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu til gagns og gamans fyrir almenning, æskuna í skólum landsins og þá fjölmörgu ferðamenn sem hingað koma.

Lifandi sædýrasöfn eru vinsæl um allan heim eins og ég sagði áðan. Þau eru fyrst og fremst byggð sem minnisvarði til að votta virðingu þeirri veigamiklu atvinnugrein sem sjávarútvegur og tengdar greinar eru. Slíkt safn hér yrði í senn safn lifandi fiska og fróðleiksnáma fyrir unga og aldna um lífríki Norður-Atlantshafsins, rannsóknir og vísindi, verndun og nýtingu fiskstofnanna, mengun og umgengni um hafið. Þar mætti fræðast um ástand fiskstofna, umhverfismál og fleira sem snertir Ísland og hafið á lifandi og áhrifaríkan hátt, sögu fiskverndar, fiskifræði og hafrannsóknir. Sædýrasafn af þessum toga ætti að vera óður okkar Íslendinga til hafsins og lífríkis þess.

[18:30]

Við höfum lagt á það áherslu á undanförnum árum að bjóða vandaða afþreyingu fyrir ferðamenn og heimafólk. Það fer ævinlega best á því að byggja hana á raunverulegum gildum og traustum grunni svo að saman fari fróðleikur og skemmtun. Væri íslenskt sædýrasafn grundvallað á þennan hátt á fræðilegum grunni, og vandað til þess með einstöku staðarvali, byggingarlist á heimsmælikvarða og sýningum af bestu gerð, mætti vel gera ráð fyrir að þangað kæmu a.m.k. 250 þús. gestir á ári, eða svipaður fjöldi og nú sækir Bláa lónið ár hvert. Þá má benda á að gert er ráð fyrir allt að 10% fjölgun ferðamanna á ári næstu árin. Tekjur af aðgangseyri, minjagripum og veitingum gætu því numið 200--350 millj. kr. á ári.

Sædýrasöfn eru sérhæfð og dýr mannvirki, bæði í uppbyggingu og rekstri, þurfa flókinn búnað til að tryggja lífsskilyrði ,,íbúanna`` og mikla nákvæmni og alúð í daglegum rekstri. Því er rétt að gera ráð fyrir að uppbygging sædýrasafns gæti kostað 800--1.000 millj. kr. og rekstur á ári 80--100 millj. kr. Allt fer þetta þó eftir því hve hátt menn setja markið í mannvirkjum og annarri aðstöðu.

Sædýrasafn, eins og hér er fjallað um, þarf að vera við fjöruborð, með annan fótinn á landi og hinn í sjó, ef svo má að orði komast, svo að gestir geti virt fyrir sér lífið í sjónum, og helst með aðstöðu fyrir báta til að flytja gesti. Slíka staði er eflaust að finna t.d. í Laugarnesi, á Seltjarnarnesi, Álftanesi, Keilisnesi, við Hvassahraun og víðar. Eigi safn af þessari stærð að bera sig er nauðsynlegt að það verði á höfuðborgarsvæðinu. Tillagan gerir því ráð fyrir að athugun beinist eingöngu að því svæði.

Fyrirmyndir mætti að einhverju marki sækja í áhugaverð sædýrasöfn í nágrannalöndunum, ekki síst í Danmörku. Má benda á þrjú, þar sem áhersla er lögð m.a. á skólastarf og virkt samband við áhugasama um netið, þ.e. Nordsømuseet á Skagen, Kattegatcentret í Grenaa og Øresundsakvariet á Helsingjaeyri. Einnig má benda á áhugaverð söfn í Boston og Baltimore á austurströnd Bandaríkjanna en þau söfn leggja einnig mikla áherslu á skólastarf.

Til gamans má geta að þessi söfn eru gölluð ,,garðar hafsins`` sem minnir á þá ágætu afþreyingu og fræðslu sem við búum við á höfuðborgarsvæðinu í Húsdýragarðinum og Grasagarðinum í Laugardal í Reykjavík. Ég efast um að sú barnafjölskylda finnist á höfuðborgarsvæðinu sem ekki leggur leið sína í þá garða nokkrum sinnum á góðviðrisdögum. Sædýrasafn yrði þó ekki að svo miklu leyti einskorðað við góðviðrisdaga. Slík söfn eru að megni til aðgengileg allt árið og án tillits til veðurs. Því má búast við jafnari og meiri aðsókn að slíku safni.

Þáltill. þessi gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin láti vinna kostnaðarútreikninga vegna safnsins, aðallega við undirbúning og ákvörðun um stofnsetningu, fræðslustefnu og rannsóknir í tengslum við safnið. Því er lagt til að metnar verði vandlega mögulegar leiðir varðandi fjármögnun, eignarhald og rekstrarform.

Stefnt skal að því að þáttur ríkisins í fjármögnun og rekstri safnsins verði í lágmarki, leitað eftir samvinnu við fyrirtæki sem til greina gætu komið við kostun og uppbyggingu á rekstri, svo sem fyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum og ferðmennsku. Fjölmargir aðilar hefðu einnig beina hagsmuni af tilkomu sædýrasafns. Eins og ég hef þegar sagt skal áherslan fyrst lögð á að væntanlegt sædýrasafn sé óður til hafsins og lífríkis þess. Það yrði jafnframt og ekki síst þökk og virðing við þá sem hafa helgað hafsins ólgusjó störf sín á einn eða annan hátt.

Hafið og lífríki þess er sá grunnur sem íslensk menning, íslenskur efnahagur og íslensk afkoma hefur byggst á frá upphafi byggðar. Við erum stolt af fortíð okkar og er tími til kominn að henni sé reistur veglegur minnisvarði.