Stofnun sædýrasafns

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 18:34:05 (1434)

2003-11-10 18:34:05# 130. lþ. 23.11 fundur 277. mál: #A sædýrasafn á höfuðborgarsvæðinu# þál., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[18:34]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri till. til þál. sem hér er til umræðu en lýsi mig algjörlega andvígan því sem fram kom í máli hv. frsm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur, að sædýrasafn á Íslandi geti ekki borið sig nema að það sé reist á höfuðborgarsvæðinu. Vísa ég þar til þeirra raka sem fram komu í framsöguræðu hennar en þar segir, með leyfi forseta:

,,Væri íslenskt sædýrasafn grundvallað á þennan hátt á fræðilegum grunni, og vandað til þess með einstöku staðarvali, byggingarlist á heimsmælikvarða og sýningum af bestu gerð, mætti vel gera ráð fyrir að þangað kæmu a.m.k. 250 þús. gestir á ári, eða svipaður fjöldi og nú sækir Bláa lónið ár hvert.``

Mér finnst þessi rök segja að að sjálfsögðu eigi að vera möguleiki á að reisa svona safn annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Við erum að tala um að það komi 250 þús. gestir í Bláa lónið. Það er á Suðurnesjum, í Grindavík. Væru settar í svona safn 800--1.000 millj. kr., eins og flutningsmenn gera ráð fyrir, er ég ekki í vafa um að það mætti reisa sædýrasafn eða ,,aquarium`` af þeim gæðum og þeirri stærð að ferðamenn hikuðu ekki við að fara af Reykjavíkursvæðinu til Suðurnesja til að komast í safn af því tagi.

Það vill stundum gleymast að á Suðurnesjum er í dag mjög veglegt fræðasetur í Sandgerði sem rekið er af miklum myndarskap. Ég held að ef svona safn yrði reist í Reykjavík þá mundi það ganga að starfsemi eins og Fræðasetrinu í Sandgerði dauðri. Nær væri að skoða möguleikann á að efla það safn með því að setja upp, í þeirri aðstöðu sem þar er og nýrri aðstöðu sem reist yrði, sædýrasafn á heimsmælikvarða. Ég tel að það væri okkur til sóma að velta fyrir okkur slíkum aðgerðum nú þegar við horfum upp á hvernig kvótinn hefur flust frá Sandgerði og að þar er full þörf á nýjum atvinnutækifærum.

Í raun er það okkur til skammar sem þjóð að hafa ekki almennilegt sædýrasafn á Íslandi. Erlendir ferðamenn sem hingað koma spyrja oft í forundran hvernig í ósköpunum standi á því að hér skuli ekki vera safn sem sýni þá nytjafiska sem við höfum byggt afkomu okkar á í gegnum tíðina. Þeir eiga í raun ekki orð yfir að þeir skuli hvergi geta farið og barið augum almennilegt sædýrasafn í landi sem hefur nánast eingöngu byggt afkomu sína á fiski.

Þær tilraunir sem gerðar hafa verið til að setja upp sædýrasafn hafa flestar siglt í strand á tiltölulega skömmum tíma, sama hvort við tölum um sædýrasafnið sem var í Höfnum eða sædýrasafnið í Hafnarfirði. Það er vegna þess að yfirleitt hafa þar verið einstaklingar sem reyndu af veikum mætti að reka svona safn. Það virðist einfaldlega ekki standa undir sér.

Flutningsmenn þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir gera ráð fyrir að í verkefnið fari verulegt opinbert fé, 800--1.000 millj. kr. til uppbyggingar, eins og hér er talað um. Þeir telja að reksturinn geti kostað 80--100 millj. kr. Ég held, herra forseti, að ef menn eru í alvöru að tala um að reisa hér sædýrasafn á heimsmælikvarða þá ættum við að finna því stað suður með sjó í tengslum við einhvern þeirra ferðamannastaða sem þar eru og draga til sín ferðamenn nú þegar. Okkur veitir ekkert af því að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf á Suðurnesjum en þar er núna. Í ljósi síðustu frétta um samdrátt sem virðist ætla að verða á Keflavíkurflugvelli held ég að einmitt eitthvað svona væri mjög sniðugt til að snúa við þeirri þróun sem fyrirsjáanleg er á framboði á störfum á Suðurnesjum.