Sjálfboðastarf

Mánudaginn 10. nóvember 2003, kl. 19:09:56 (1449)

2003-11-10 19:09:56# 130. lþ. 23.10 fundur 275. mál: #A sjálfboðastarf# þál., EKH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft merku máli. Eins og komið hefur fram í ræðum hv. þm. eru ýmsar leiðir til þess að efla sjálfboðastarf hér á landi sem er afskaplega mikilvægur þáttur í okkar menningar- og þjóðlífi. Ég held þó að áhrifaríkasta leiðin til þess að gera það sé ef til vill að veita skattaívilnanir til hjálpar- og mannúðarsamtaka sem að þessum málum starfa.

Ég vil minna á það að fyrir þinginu liggur þáltill. sem ég er 1. flm. að, þar sem gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin skipi nefnd til þess að fara yfir þessi mál með það fyrir augum að veita auknar heimildir til þess að draga frá tekjum framlög til menningar- og mannúðarsamtaka.

Það er athyglisverð staðreynd að í öllum löndum sem ég þekki til erlendis er einstaklingum heimilt að draga frá tekjum ákveðna upphæð áður en hún kemur til skatts ef hún er lögð til mannúðarsamtaka, hjálpar- eða líknarstarfs. Nokkrir starfsmenn hjálparsamtaka hér á landi tóku sér fyrir hendur að skoða þessi mál núna á síðustu vikum. Þeir skoðuðu m.a. hvernig þessum málum væri háttað í sjö löndum sem Íslendingar hafa öll mikil samskipti við og alls staðar voru heimildir til skattfrádráttar vegna framlaga til mannúðar- og líknarmála. Það er umhugsunarefni hvers vegna svo er ekki hér. Við vitum að fyrirtæki hafa vissar heimildir til þess að leggja líknarsamtökum, listasamtökum og ýmsum öðrum samtökum lið og njóta skattfrádráttar, að 0,5% af veltu. Engu að síður held ég að ástandið sé þannig að það vanti mikið upp á að fyrirtæki sem hafa fengið aðstöðu til þess að starfa hér á landi greiði samfélaginu, sem þau standa í svo mikilli skuld við, til baka með slíkum framlögum. Einnig þar væri því ástæða til að rýmka heimildir og á Alþingi hafa verið fluttar tillögur um það að tvöföldun á framlagi til menningarmála gæti komið til frádráttar tekjum áður en fyrirtæki færu að greiða tekjuskatt. Það er gert ráð fyrir því í þessari tillögu sem ég nefndi áðan að slík tvöföldun gæti einnig komið til greina gagnvart einstaklingum.

Ég held að í stað þess að hjálparsamtök, líknarsamtök og önnur séu sífellt að betla af ríkisvaldinu um framlög til sinna þörfu mála og starfsemi, sé mjög athugandi að fólkið í landinu fái tækifæri til þess að ákveða sjálft hvaða samtökum, hvaða hjálparstarfi, hvaða björgunarstarfi það vill helst leggja lið. Ég er ekki viss um að ríkið sé alltaf besti aðilinn til þess að ákveða það og eins og kom fram hér áðan þá sparar sjálfboðaliðastarf gífurlega mikla fjármuni fyrir hið opinbera. Þess vegna ætti ríkið og hið opinbera að viðurkenna nauðsynlegt starf hjálparsamtakanna í landinu með því einmitt að veita einstaklingum heimild til frádráttar frá skatti vegna framlaga til menningar- og líknarstarfsemi, hjálparstarfsemi, og huga að rýmkuðum heimildum fyrir fyrirtæki.