Starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 13:46:27 (1459)

2003-11-11 13:46:27# 130. lþ. 24.91 fundur 132#B starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Í svarinu til hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur kom fram að miðað hefði verið við samninga bankaforstjóra í þessu tilliti og þetta væru gamlir samningar, 15 ára gamlir. Lífeyrisrétturinn sem um er að ræða er að verðmæti 90 milljónir. Það þýðir að réttindavinnslan var 6 milljónir á ári fyrir viðkomandi mann, það er það sem það kostaði ríkissjóð, á meðan venjulegt fólk í almennu lífeyrissjóðunum --- það fær ekki 2% eins og opinberir starfsmenn, nei, það fær 1,4--1,6% á ári miðað við töku lífeyris um sjötugt. Það fær sem sagt 20--25% lífeyrisrétt fyrir sama tíma og sá lífeyrir er verðtryggður miðað við verðlag en ekki miðað við laun eins og þessar 90 milljónir, þær eru miðaðar við laun.

Á sama tíma og á að fara að skerða suma verkalýðssjóðina --- þá á að fara að skerða, það stendur fyrir dyrum, það á að fara að skerða þessi 25% sem eru verðtryggð miðað við verðlag --- er réttur opinberra starfsmanna gulltryggður. Þetta er það sem ég hef margoft bent á. Ef einhver er hissa þá skal hann bara lesa ræður mínar um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og annarra og það sem ég hef kallað fé án hirðis.