Starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 13:51:48 (1462)

2003-11-11 13:51:48# 130. lþ. 24.91 fundur 132#B starfslokasamningar við forstjóra Byggðastofnunar# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs um störf þingsins þegar ég heyrði í hæstv. félmrh. Ég hef eiginlega sjaldan eða aldrei heyrt annað eins og þegar hv. þingmenn koma hér upp og óska eftir skýringum og svörum að því er varðar útgjöld ríkissjóðs, útgjöld sem byggja á skattgreiðslum landsmanna. Það er hlutverk þingsins að fylgjast með því hvernig farið er með fé ríkissjóðs. Og það er verið að spyrjast fyrir um hverju þessi mismunun sæti. Þá kemur hæstv. ráðherra og er bara með þjóst og hávaða og lýsir vanþóknun sinni á því að verið sé að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þeir ráðstafi fjármunum landsmanna. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ýmsu hefur maður kynnst hér í þinginu, og kannski rétt að fyrirgefa hæstv. ráðherra því að hann er nýr í starfi og vonandi að hann læri af þessu að svona hegða menn sér ekki í þinginu.

Hæstv. ráðherra ber skylda til að svara þeim fyrirspurnum sem fyrir hann eru lagðar og gera það þannig að einhver sómi sé að en á ekki að hegða sér á þann hátt sem hann gerði hér áðan.