Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 14:20:35 (1467)

2003-11-11 14:20:35# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað fagna því að sjá þetta frv. í þingsölum. Ég held að hér sé verið að koma mikilsverðu máli í góðan skikk og í raun er verið að halda áfram á braut sem þegar hefur verið fetuð.

Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að með þessu er verið að koma á betri reglu um meðferð fjár sem verður til, þ.e. bæði uppítökusjóðurinn og eins þessir peningar sem hafa orðið til með Hafró-aflanum sem svo er kallaður, þ.e. 5% reglunni. Það er enginn vafi á því að með því að setja þetta í einn og sama sjóðinn verður hægt að nýta þetta miklu betur með skilvirkari hætti og engin hætta verður á því að um verði að ræða tvíverknað á milli tveggja aðila.

Ég vil aðeins víkja athyglinni að forsögu málsins og sérstaklega því sem lýtur að 5% reglunni, Hafró-aflanum sem svo hefur verið kallaður. Þannig er mál með vexti að hæstv. ráðherra lagði það til á sínum tíma að það yrði gert með þeim hætti að 5% af afla gætu menn selt á fiskmarkaði og það yrði gert þannig að 80% af afrakstrinum færi til Hafrannsóknastofnunar en 20% til þess að standa undir fyrirhöfn og aðstöðu og færi þess vegna bæði til útgerðar og sjómanna. Ég tel að þetta hafi verið í sjálfu sér mjög eðlileg aðferð. Til þess að koma í veg fyrir alla tortryggni varðandi verðmyndun á þessu sjávarfangi varð niðurstaðan sú að þetta yrði gert í gegnum fiskmarkaði. Við þekkjum það að mikil tortryggni er ríkjandi milli sjómanna og útvegsmanna varðandi verðmyndunarþáttinn og við höfum auðvitað ekki þægilegri tæki en einmitt fiskmarkaðina til þess að búa til þetta verð þannig að um þennan þátt málsins yrði a.m.k. enginn ágreiningur.

Sjálfur er ég ekki í nokkrum vafa um að þessi aðferð er miklu líklegri en flest annað til þess að draga úr tilhneigingu til brottkasts. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að brottkast er hrollkaldur veruleiki í íslenskum sjávarútvegi. Hæstv. sjútvrh. beitti sér fyrir því á sínum tíma að gerð var sérstök skoðanakönnun sem Gallup framkvæmdi. Hún leiddi í ljós á grundvelli svara frá sjómönnum um hversu mikið brottkast væri að ræða.

Það er líka athyglisvert að á sama tíma kynnti Hafrannsóknastofnun líka sínar athuganir sem leiddu í ljós mjög svipaða og áþekka niðurstöðu um umfang brottkastsins og Gallup hafði dregið fram. Raunar er Hafrannsóknastofnun á öllum tímum að vinna að slíkum athugunum.

Í þriðja lagi, ef við skoðum gömlu skoðanakönnunina hans Kristins Péturssonar þá kemur líka fram mjög svipað mat á því hvert umfang brottkastsins er. Ég tel því, virðulegi forseti, að ef við skoðum þetta í þessu ljósi þá vitum við nokkurn veginn hvert brottkastið er og við eigum út af fyrir sig ekki að þurfa að rífast mjög mikið um umfangið. Þarna er um að ræða þrjár sjálfstæðar athuganir sem benda í mjög svipaða átt og ég held að langskynsamlegast sé fyrir umræðuna að við höldum okkur við það að þetta sé umfangið.

Þessi regla átti fyrst og fremst að fela í sér, og hún hefur gert það, möguleika á því að auðvelda mönnum þegar þeir standa frammi fyrir því að eiga litlar aflaheimildir og fá afla umfram aflaheimildir, að þurfa ekki að kasta, en stundum hefur verið talað um að sjómenn séu neyddir til og þeir standi raunverulega frammi fyrir því vali að þurfa að kasta. Ég tel einfaldlega að með því að búa til eins konar stuðpúða í kerfinu með þessari 5% afla reglu, Hafró-reglu, þá hafi í raun verið stigið mjög stórt skref í þá átt að draga úr tilhneigingu til brottkasts.

Sjálfur hef ég aldrei verið mjög trúaður á að hið virka eftirlit, eins og menn hafa talað mikið um, sé endilega árangursríkasta leiðin til þess að draga úr brottkasti. Ég held að það séu hins vegar hagrænar aðgerðir af þessu taginu sem séu líklegastar til árangurs. Til viðbótar get ég í því sambandi nefnt að líka er búið að festa það niður að menn geta tekið 10% af afla sínum og þurfa ekki að draga frá þeim hluta aflans nema helminginn til kvóta. Þetta gefur mönnum gríðarlega mikið svigrúm sem á að duga til þess að draga a.m.k. mjög verulega úr tilhneigingunni til brottkasts.

Um þetta voru menn í raun alveg sammála þegar við ræddum þessi mál á vordögum 2002. Þá kom fram sameiginlegt nefndarálit frá sjútvn. þar sem við studdum þá tillögu hæstv. sjútvrh. að setja á þessa 5% reglu og ráðstafa henni eins og gert hefur verið æ síðan, þ.e. í fyrsta lagi að láta peningana að langmestu leyti renna til Hafrannsóknastofnunar en að hluta til þeirra sjómanna og útvegsmanna sem hefðu landað aflanum og selt hann.

Menn voru hins vegar mjög að velta því fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt verja að þessum afla, þessum fjármunum, með nokkuð öðrum hætti, þ.e. að þeim yrði varið til hafrannsókna og rannsókna og nýsköpunar, en þeir rynnu ekki beint til Hafrannsóknastofnunar.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að í nefndaráliti sem sjútvn. Alþingis sendi frá sér á þessum vordögum þá fitjuðum við upp á því sem þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Þá var á það bent að stofnanir og sjálfstætt starfandi vísindamenn gætu sótt um styrki í þann sjóð er fæst fyrir umframaflann og rennur til Hafrannsóknastofnunarinnar.``

Þarna var auðvitað verið að ýja að því sem hæstv. sjútvrh. er nú að leggja til að við leiðum í lög og ég tek mjög hraustlega undir, þ.e. að við búum til sjálfstæðan sjóð sem í geta sótt bæði opinberar vísindastofnanir eins og Hafrannsóknastofnun og sjálfstætt starfandi vísindamenn, hvort sem þeir eru í háskólunum um landið eða starfa með öðrum hætti að sínum rannsóknum, hvort sem um er að ræða heilar opinberar stofnanir eða fyrirtæki eða hvern þann sem getur lagt fram trúverðug plögg til grundvallar rannsóknarplönum sínum og nýsköpunaráætlunum. Það er mjög eðlileg málsmeðferð. Þá eru þeir að keppa innbyrðis.

Það sem sá sem hér stendur og mjög margir aðrir hafa einmitt gagnrýnt varðandi fiskveiðiráðgjöfina, svo að dæmi sé tekið, er að vantað hafi á þessa samkeppni hugmyndanna, það hafi verið þannig að þeir sem starfa innan Hafrannsóknastofnunar hafi haft algjöra yfirburðaaðstöðu í hinum vísindalega heimi fiskifræðinnar hér á landi vegna þess að þeir hafa haft fyrst og fremst langmestan aðgang að fjármagni. Þar hafa sem betur fer komið inn langflestir af okkar frábæru vísindamönnum. Síðan er annað, því fram til ársins 2002 var það þannig að Hafrannsóknastofnun ein mátti fara til vísindarannsókna og veiða í vísindaskyni án þess að það væri dregið frá kvóta. Þetta gerði það að verkum að sjálfstætt starfandi vísindamenn sem hefðu kosið t.d. að fara til veiða í vísindaskyni, hvort heldur á vegum háskóla eða fyrirtækja o.s.frv., áttu ekki þennan kost. Þeir stóðu því höllum fæti. Þess vegna var þessum lögum breytt vorið 2002 og sett inn ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Afli sem veiddur er í rannsóknaskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar reiknast ekki til heildarafla. Þá er ráðherra heimilt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar að ákveða að afli sem fenginn er við vísindalegar rannsóknir annarra aðila skuli ekki að hluta eða öllu leyti reiknast til heildarafla.``

Virðulegi forseti. Ég tel að hér hafi verið um að ræða skref fram á við sem vissulega er að skila okkur ákveðnum árangri. Ég tel að þarna sé verið að opna möguleika á frekari rannsóknum.

Virðulegi forseti. Ég vildi með þessum fáeinu orðum, og fer nú brátt að ljúka máli mínu, vekja athygli á því að með þessu frv. erum við að setja málið í tiltekið rökrétt samhengi við það sem við höfum verið að vinna að. Ég tel að þetta sé stórt og gott skref fram á við til að opna þessa vísindalegu kanala fyrir þá sem vilja starfa að vísindalegum rannsóknum innan stofnana og utan stofnana, frjálsa vísindamenn, vísindamenn sem starfa innan háskólasamfélagsins og aðra þá sem vilja láta til sín taka á þessum vettvangi.