Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:32:33 (1478)

2003-11-11 15:32:33# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka fyrir mjög jákvæðar og uppbyggilegar umræður sem hér hafa farið fram um þessi tvö frumvörp. Jafnframt vil ég byrja á að óska hv. þm. Grétari Mar Jónssyni til hamingju með jómfrúrræðuna. Það var mjög ánægjulegt að minn gamli skólabróðir, sem ekki hefur alltaf verið sammála mér um hlutina, skyldi byrja á að hrósa mér í jómfrúrræðu sinni og þakka ég honum sérstaklega fyrir það.

Nokkuð var fjallað um nýtingu þeirra fjármuna sem bæði frumvörpin fjalla um og verður að segjast eins og er að þeir hafa komið í mjög góðar þarfir að undanförnu, sérstaklega Hafró-aflinn hjá Hafrannsóknastofnuninni og ekki síður sjóðurinn sem til varð vegna gjalds á ólögmætum sjávarafla mörg undanfarin ár. Að því er ég best veit, svo ég svari hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrst, hefur sá sjóður einungis verið notaður til hafrannsókna og eftirlits. Hafrannsóknir hafa í því tilliti verið skilgreindar nokkuð vítt og fiskeldi sjávarfiska hefur verið talið þar á meðal og rannsóknir því tengdar og fjármunir til hlutafjár til Fiskeldis Eyjafjarðar hefur komið úr þessum sjóði að miklu leyti til, þ.e. það sem frá opinberum aðilum hefur komið.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson fjallaði nokkuð um þetta í ræðu sinni líka, þ.e. hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað. Þeir hafa komið í mjög góðar þarfir á síðustu missirum vegna þess að þurft hefur að leggja í auknar rannsóknir og aukið úthald hafrannsóknarskipa vegna bæði loðnu- og síldarrannsókna og eins vegna hvalveiðanna á þessu ári. Komið hefur fram hjá hv. ræðumönnum að þeir hafa haft áhyggjur af því að Hafrannsóknastofnun mundi tapa einhverjum fjármunum við þessa breytingu. Ég hef alls ekki hugsað þetta á þann veg að Hafrannsóknastofnunin væri að tapa einhverjum fjármunum við þetta. Ég geri ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun muni áfram fá bróðurpartinn af því sem þarna mun skila sér á næstu árum. Hins vegar eru þessir fjármunir að aukast og það stefnir í að þeir verði af þeirri stærðargráðu að ekki sé réttlætanlegt að þeir fari í þennan eina farveg og að rétt sé að aðrir sem að slíkum rannsóknum koma og aðrir sem koma að rannsóknum í sjávarútvegi njóti þess líka. Og þá geri ég ráð fyrir að reynt verði að koma til móts við aðra aðila sem stunda rannsóknir í fiskifræði og á hafinu, og að einmitt þeir aðilar sem hv. þm. Jón Bjarnason nefndi, eins og háskólastofnanir, janfnvel náttúrustofur, geti komið að þeim hluta.

Einnig held ég að það sé ekki alveg rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að eftirlit sé óvinsælt meðal sjómanna. Ég skynja það alls ekki að sjómenn séu á móti eftirliti. Ef einhverjir sjómenn fara ekki eftir lögum og reglum þá get ég kannski skynjað það að þeir séu ekki sáttir við eftirlitið, en ég vil leyfa mér að draga þá ályktun að flestir sjómanna okkar fari eftir lögum og reglum og þeir vilji að allir fari eftir lögum og reglum og skynji það aðhald sem felst í eftirlitinu. Ég vil því ekki draga þá ályktun að eftirlitsþátturinn sé óvinsæll þáttur sem ekki eigi að vera með í þessu.

Hins vegar hefur AVS-verkefnið og verðmætasköpunin komið líka til umræðu og að sjálfsögðu kæmi til greina að hluti af þessum fjármunum færi í einhver þau verkefni og þá kannski sérstaklega þann hlutann sem snýr að fiskeldinu.

En við verðum auðvitað líka að gera okkur grein fyrir því að þetta er ekki í hendi, þannig að það er kannski ótímabært að fara að setja upp eitthvert kerfi og mikið bákn og úthluta fjármunum fyrir fram. Við vitum ekki nákvæmlega hverjir þeir eru þó að einhver merki séu um það eins og ég sagði að þeir gætu orðið meiri en þeir hafa verið. Ég held að við ættum að fara varlega í það að búa til mikil kerfi í kringum þetta, en þetta er sú afstaða sem ég hef til þessa máls og hvernig eigi að ráðstafa þessu. Ef einhverjir hafa áhyggjur af því að það verði ekki gert á gegnsæjan hátt af hálfu ráðuneytisins þá vil ég biðja þá hina sömu að líta til þess hvernig staðið hefur verið að AVS-verkefninu þar sem það hefur verið gert á mjög faglegan og gegnsæjan hátt. Þegar er farið að úthluta verðmætum, svo ég orði það þannig, af þeim aðilum og m.a. hef ég fært úthlutunarverkefni til þess kerfis sem þar hefur verið komið upp sem áður voru í höndum sjútvrh. sjálfs og unnið er núna í gegnum faghópa og verkefnisstjórn með mikilli aðkomu atvinnulífsins. Ég held því að menn eigi ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að um geðþóttaákvarðanir sjútvrh. verði að ræða í þessu tilfelli og að ekki verði um þetta mörkuð markviss stefna og það gert á gegnsæjan og skýran hátt.

Ýmis önnur mál hafa komið hér til umræðu og ekki óeðlilegt og sjálfsagt að tæpa aðeins á þeim. Þá er það kannski það sem skyldast er því sem ég var núna rétt að fjalla um, þ.e. fjármál rannsóknastofnananna sem hv. þm. Kristján L. Möller kom inn á. Það er auðvitað alltaf svo með stofnanir og kannski sérstaklega rannsóknastofnanir að þær vildu jafnan gera meira en þær hafa ráðstöfunarfé til á hverjum tíma og það ber bara vott um metnað þeirra sem þar eru í forustu. En ég vil ekki kannast við það að Hafrannsóknastofnunin eða aðrar stofnanir á vegum sjútvrn. hafi ekki fjármuni til þess að gera þá hluti sem nauðsynlegir eru á hverjum og einum tíma og jafnvel þó að það sé vilji til að gera meira þá verður það líka að skoðast í heildarsamhengi ríkisfjármálanna og ákvarðanir að takast í tengslum við þá stöðu og almenna stefnu.

Minnst var sérstaklega á úthaldsdaga rannsóknarskipanna, að þeim hefði fækkað. Það er ekkert skrýtið þótt þeim hafi fækkað á sl. árum þar sem annað stærsta skipið var í slipp mjög stóran hluta ársins. En svo verður líka að hafa í huga að nýja skipið er dýrara í rekstri en skipið sem það kom í staðinn fyrir, en það er hins vegar jafnframt afkastameira. Ég held því að sú ályktun sem hv. þm. dró af þessu, að minna væri um rannsóknir að ræða vegna þessa, sé ekki rétt.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi til umræðunnar vigtunarleyfin og þær upplýsingar sem hann hafði fengið í svari frá mér varðandi gögn Fiskistofu. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi líka til sögunnar upplýsingar sem ég hefði gefið í svörum í þinginu í vetur. Það verður að segjast eins og er að Fiskistofa býr yfir mjög miklu magni upplýsinga. Þær upplýsingar eru vissulega misjafnlega aðgengilegar og þær skipta misjafnlega miklu máli eftir því hvað er að gerast á hverjum tíma. En svo maður dragi almenna ályktun og almenna niðurstöðu af því sem hér hefur komið fram þá er ástæða til að glöggva sig betur á þeim tölfræðilegu gögnum sem til eru og ég hef einmitt verið að huga að því að undanförnu hvernig hægt væri að gera það.

Hins vegar vil ég líka segja varðandi vigtunarmálin sérstaklega og viðskiptaferlið með fisk hér innan lands sem tengist mjög vigtunarmálunum og fiskmörkuðunum, að það mál er í sérstakri athugun hjá okkur, hvaða breytingar er skynsamlegt að gera á því kerfi til að fá betri virkni markaðarins og minni bjögun vegna hinna ýmsu stuðla sem notaðir eru þegar verið er að færa stærðir á milli skilgreindra hugtaka, eins og við hv. þm. Jóhann Ársælsson höfum rætt hér nokkrum sinum vegna útreiknaðra stuðla sem notaðir eru. Ég á von á því að út úr þeirri vinnu fari að koma eitthvað á næstu vikum sem hægt er að ræða um við hagsmunaaðilana. Þarna eru auðvitað gríðarlega miklir hagsmunir og litlar breytingar á einstökum atriðum geta skipt einstök fyrirtæki, einstök byggðarlög og einstök svæði mjög miklu máli. Það er því nauðsynlegt að gera þetta mjög vel og glöggva sig vel á því sem þar kemur fram.

Ég held að ekki sé tímabært fyrir okkur að fara að gera breytingar á því hvernig Hafró-aflinn virkar varðandi magn og prósentur. Ég held við þurfum að hafa betri tíma til að sjá þetta þróast meira og við sjáum það bara á þeim tölum sem við höfum verið með að aukning er í þessu og við sjáum af þeim tölum sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vitnaði til að ákveðnir hlutar flotans eru seinni til að átta sig á því hvað felst í þessu. Þess vegna held ég að við ættum að láta þetta bráðabirgðatímabil --- þetta er náttúrlega bráðabirgðaákvæði, eins og hv. þingmenn vita --- líða vel að lokum áður en við förum ofan í það dæmi.

Að síðustu vil ég aðeins gera að umræðuefni orð hv. þm. Péturs Blöndals og umræðu hans og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Mér fannst þeir nú reyndar tala svolítið í austur og vestur sem kannski er ekkert skrýtið þegar þessir tveir menn eiga í hlut. (Gripið fram í: Hvor var í austur?) Þarf ég nokkuð að útskýra það? Báðir hafa nokkuð til síns máls. Ég held að það sé ákveðið vandamál í hafrannsóknum á Íslandi hvað það er tiltölulega lítill og afmarkaður hópur sem fjallar um þau mál og hann er nánast allur á launum hjá ríkinu. Það er held ég að mínu mati takmarkandi þáttur í þessu. Það eru hins vegar takmörk fyrir hversu breiðan vísindalegan grunn, hversu breiðan akademískan grunn fyrir svona umræðu er hægt að byggja í svona litlu samfélagi, hvor hægt sé að vera með fleiri en eina, fleiri en tvær og jafnvel þrjár miðstöðvar fyrir vísindalega umræðu um þennan þátt í okkar litla landi. Við þurfum hins vegar alltaf að reyna að halda slíkri umræðu gangandi og reyna að passa upp á það að öll sjónarmið komi fram í umræðunni.

En þetta á ekki bara við hér. Ég hef rekið mig á það, t.d. þegar við vorum að vinna í ofmatinu svokallaða, að til þess að fá utanaðkomandi aðila til að skoða þetta mál þá var ekki auðvelt að leita eftir vísindamönnum sem ekki hefðu verið í tengslum við þá menn sem hér voru. Að þessu leytinu til hefur hv. þm. Pétur Blöndal rétt fyrir sér.

Hins vegar vil ég fullyrða að vísindamenn Hafrannsóknastofnunar vinna af bestu samvisku á hverjum og einum tíma. Ég hef aldrei rekist á það að þar væri um neinar blekkingar eða undanbrögð að ræða. Og það er ómaklegt ef einhverjir halda því fram. Þeir hafa verið tilbúnir til að viðurkenna það heiðarlega þegar skekkjur hafa komið í útreikninga þeirra og tekist á við það að leiðrétta það á fullkomlega eðlilegan, opinn og heiðarlegan hátt. Ég held að við séum þess vegna með betri stöðu í þessum vísindum en við vorum með fyrir nokkrum árum.

Síðan er ekki rétt það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði, að búið væri að fara eftir því sem vísindamennirnir hafa sagt áratugum saman eða í tuttugu ár. Það er ekki rétt. Það hefur ekki alltaf verið farið eftir vísindamönnunum. Vísindamennirnir hafa gert sín mistök þegar komið hefur að því að ákveða aflann, en stjórnmálamennirnir hafa líka gert sín mistök. En við verðum að trúa því og ég held að það sé rétt, að hvorir tveggja reyna að gera þetta eins vel og þeir geta miðað við þær aðstæður sem þeir búa við á hverjum tíma.