Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:47:43 (1479)

2003-11-11 15:47:43# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þessi umræða hefur verið ágæt og á jákvæðum nótum. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra svaraði ekki einni spurningu minni, þ.e. um það hvort ráðuneytið hafi skorið niður fjárlagabeiðnir Hafrannsóknastofnunar um rúmar 350 millj. kr. á beiðni Hafrannsóknastofnunar til sjútvrn. vegna fjárlaga 2004. Því vil ég ítreka þá spurningu mína og spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt.

Aðeins til þess að nefna það hvaða tölur verið er að ræða um í þessu þá er ráðuneytið allt með rúmar 3.000 millj. kr., þ.e. gjöld umfram tekjur. Það er svona eins og maður heyrði á sl. ári þegar verið var að kaupa til baka svona 48--49% af hlutafé í ákveðnu ekkert allt of stóru sjávarútvegsfyrirtæki.

Virðulegi forseti. Nefna má aðrar tölur. Í þessum tölum er talið að Hafrannsóknastofnun kosti 1.174 millj. Þá tölu getum við líka borið saman við ágætt byggðarlag úti á landi, Vopnafjarðarhrepp, sem hefur barist hetjulegri baráttu til að kaupa til baka til sín hlutabréfin í Tanga. Þeir voru þar með að verja fyrirtækið og verja störf fólksins og halda eignarhaldi yfir fyrirtækinu heima. Það kostaði um 1.000 millj. kr. Þetta eru tölur sem rétt er að bera saman.

Ég ítreka spurningu mína, virðulegi forseti, til hæstv. ráðherra: Voru tillögur Hafrannsóknastofnunar skornar niður um 354 millj. kr.?