Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:51:35 (1481)

2003-11-11 15:51:35# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan er ekki furðuleg þegar rædd eru fjárframlög til jafnmikilvægrar stofnunar og Hafrannsóknastofnunar til þess að fylgjast með ástandi fiskstofna vegna þess --- og það kom fram í fyrri ræðu minni --- að fram kom hjá fulltrúum Hafrannsóknastofnunar á fundi sjútvn. að stórt verkefni, loðnurannsóknir í norðurhöfum, situr á hakanum vegna fjárskorts. Auðvitað tek ég undir það heils hugar að stofnanir eiga ekki alltaf að fá allt sem þær biðja um á fjárlögum. Það hefur aldrei gerst svoleiðis og mun aldrei gerast. En spurningin er: Er stofnuninni gert kleift að sinna starfi sínu með þeim fjárframlögum sem sett eru fram eða vantar meira?

Mér finnst mjög hættulegt ef stofnunin getur ekki sinnt þeim verkefnum sem ég hef nefnt og öðrum sem ég nefndi í fyrri ræðu minni. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. sjútvrh.: Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að Hafrannsóknastofnun geti ekki sinnt sínu stóra verkefni á sviði loðnurannsókna í norðurhöfum nú þegar ástand sjávar fyrir norðan er eins og við höfum rætt og vitum hvernig er? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því?