Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 15:57:08 (1484)

2003-11-11 15:57:08# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Það eru þrjú atriði, herra forseti. Þetta bráðabirgðaákvæði hefur verið framlengt einu sinni og þá var það framlengt aftur sem bráðabirgðaákvæði, einmitt vegna þess að menn töldu að ekki væri liðinn nægjanlegur tími til þess að vinna þá tillögu sem ætti að standa sem varanleg grein í lögunum.

Í öðru lagi varðandi upplýsingar frá Fiskistofu þá nefndi ég það sérstaklega áðan að upplýsingar væru misjafnlega aðgengilegar og skiptu misjafnlega miklu máli eftir því um hvað væri verið að fjalla og hvað væri vandamál hvers tíma, og að þetta væri nokkuð sem ég væri að undirbúa að skoða sérstaklega.

Í þriðja lagi varðandi ráðstöfun á sjóðnum vegna ólögmæts sjávarafla og Fiskeldi Eyjafjarðar þá held ég að þeim fjármunum hafi verið afskaplega vel varið og að vandfundnar séu jafnathyglisverðar og árangursríkar rannsóknir á grunnlíffræði einnar fisktegundar og þær sem þar fóru fram á lúðunni með gríðarlega miklum og góðum árangri, sérstaklega miðað við þá fjármuni sem til þess voru notaðir. Nágrannar okkar hafa eytt margföldum þeim upphæðum án þess að ná eins miklum árangri. Ég held að þetta séu rannsóknir sem við eigum að vera mjög hreykin af og ég held að þeim fjármunum hafi verið vel varið.