Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:11:57 (1488)

2003-11-11 16:11:57# 130. lþ. 24.3 fundur 254. mál: #A gjald vegna ólögmæts sjávarafla# (rannsóknir og nýsköpun) frv., 255. mál: #A stjórn fiskveiða# (hafrannsóknaafli, þorskeldiskvóti) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég gleymdi að svara einu atriði í spurningu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar áðan og hann minnti mig á það núna í ræðu sinni, það er varðandi upptökuaflann úr sjóðnum vegna gjaldtöku á ólögmætum sjávarafla. Sú upphæð hefur minnkað hin síðari ár, þannig að á þessu fimm ára tímabili sem tilgreint er eru upphæðirnar hærri en á þessu ári og því síðasta. Ég er ekki með tölurnar fyrir hvert ár, en ég fer með þetta eftir minni á þennan hátt.

Það er rétt hjá hv. þm. að menn þekkja skoðanir hans og hans flokks á fiskveiðistjórnarkerfinu. Hann ætlaði ekki að fara lengra út í það í þessari umræðu. Menn þekkja líka mínar skoðanir á því kerfi, þar af leiðandi ætla ég heldur ekki að fara lengra út í þá umræðu hér.