Umferðarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:35:00 (1494)

2003-11-11 16:35:00# 130. lþ. 24.13 fundur 134. mál: #A umferðarlög# (hægri beygja á móti rauðu ljósi) frv., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Frú forseti. Í rauninni ætti ég að byrja ræðu mína á orðunum dropinn holar steininn því að hér mæli ég í fimmta sinn fyrir sama máli. Hefur það líklega þrisvar verið flutt sem þáltill. og er í nú annað sinn flutt sem frv. til laga um breytingu á umferðarlögum.

Þetta er í sjálfu sér mjög einfalt frv., verið er að mæla fyrir breytingu á 15. gr. laga um umferðarlög og gert ráð fyrir því að greinin orðist svo:

,,Ökumanni sem hyggst beygja til hægri við gatnamót á umferðarljósum er heimilt að beygja á móti rauðu ljósi nema sérstaklega sé tekið fram að það sé óheimilt. Hann skal þó ætíð stöðva ökutæki eins og við stöðvunarskyldu og veita umferð sem kemur úr öðrum áttum forgang.``

Þetta er með öðrum orðum hægri beygja á móti rauðu ljósi.

Eins og ég nefndi er þetta í fimmta sinn sem ég mæli fyrir þessu máli sem í mínum huga er afskaplega einfalt. Ég þekki það sjálfur af eigin raun eftir að hafa bæði búið í Kanada og ekið þar um og eins og í Bandaríkjunum þar sem umferð er mikil er þetta meginregla og vert að draga það fram að hér er um meginreglu að ræða að þegar bílstjóri kemur að rauðu ljósi þá er honum eða henni heimilt að beygja til hægri, nema annað sé tekið fram en þarf þó að virða aðalbrautarrétt og þar fram eftir götunum.

Í Bandaríkjunum og Kanada gengur þessi regla afskaplega vel. Hún léttir mikið á helstu umferðaræðum þar sem eru miklir umferðarhnútar og eiga það til að skapast, enda má segja afskaplega praktískt mál að létta á umferð. Þar að auki kann það að fela í sér og felur örugglega í sér sparnað því að með þessari einföldu breytingu á umferðarlögum verður óþarfi að leggja svokallaðar aðreinar.

Þetta frv. og þáltill. fóru á sínum tíma út til umsagnar og sýndist þar sitt hverjum af umsagnaraðilum og má eiginlega skipta þeim í tvennt. Annars vegar hina ýmsu miklu fræðinga sem hafa gjarnan atvinnu af því að fjalla um umferð teoretískt, þeir leggjast mjög gegn þessari reglu, og hins vegar þá sem eru að nota umferðina, atvinnubílstjóra ekki síst, þeir mæla eindregið með því að þessi háttur verði tekinn upp hér.

Ég á reyndar, frú forseti, afskaplega erfitt með að skilja andstöðu þeirra sem leggjast gegn þessu. Rökin sem gjarnan eru notuð eru að þetta muni auka slysahættu einfaldlega vegna þess að bílstjórum sé ekki treystandi. Það er rétt að árétta það sem fram kemur bæði í greinargerð og eins í frumvarpstextanum að bílstjóri sem hyggst beygja til hægri á móti rauðu ljósi verður að virða stöðvunarskyldu og þarf að meta það hvort óhætt sé að taka þessa litlu og gjarnan saklausu hægri beygju og metur það og ábyrgðin er með öðrum orðum bílstjórans.

Nú skulum við setja okkur í spor þessa sama bílstjóra sem fer eftir afrein, viðurkenndri afrein eins og við höfum ofurtrú á í dag. Hvað gerist þegar sá sami bílstjóri kemur eftir afreininni að aðalbrautinni? Hann þarf að nema staðar, hann þarf að meta hvort óhætt sé að aka út á aðalbrautina. Með öðrum orðum: Nettóniðurstaðan er nákvæmlega sú sama. Þetta snýst um það að treysta bílstjórum sem við hljótum að þurfa að gera, þeir verða alltaf að vega og meta með hvaða hætti þeir ætla að haga akstri sínum.

Þar að auki hygg ég að þetta muni létta geð margra bílstjóra. Eins og ég hygg að flestir þekki pirrar það marga og margir hafa tjáð sig um það að þegar þeir koma að rauðu ljósi og ætla að beygja til hægri og það er nákvæmlega engin umferð, ég tala nú ekki um ef að næturlagi er, þá finnst mönnum þeir sitja eins og illa gerðir hlutir af því að þeim er ekki treyst, þó að engin umferð sé, til þess að taka eina saklausa hægri beygju. Og við getum spurt: Ef það gengur vestan hafs og í sumum löndum Evrópu, m.a. er þetta leyft í fyrrum kommúnistaríkjum Austur-Evrópu, getum við hér á Íslandi þá ekki treyst okkar bílstjórum?

Í þeirri góðu trú að íslenskum ökumönnum verði treyst mæli ég fyrir þessu máli í fimmta sinn, og í þeirri góðu von að það fái nú farsæla afgreiðslu og frv. verði að lögum þannig að íslenskir ökumenn geti farið að beygja til hægri á móti rauðu ljósi en taki að sjálfsögðu mið af þeim aðstæðum sem eru hverju sinni, rétt eins og ávallt þarf að gera í umferðinni. Mæli ég með því, frú forseti, að málinu verði beint til hv. allshn.