Umferðarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 16:43:31 (1496)

2003-11-11 16:43:31# 130. lþ. 24.13 fundur 134. mál: #A umferðarlög# (hægri beygja á móti rauðu ljósi) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að ég geti tekið undir orð hv. þm. um baráttuna fyrir aukinni notkun hjólreiða af ýmsum ástæðum, af mengunarástæðum og líka er það bara hollt og gott fyrir hvern og einn. Það styrkir að vera undir beru lofti --- ég vil nú ekki segja alltaf góðu lofti því að ekki er nú alltaf gott loftið í borgunum.

Það er alveg rétt sem hv. þm. bendir á að hjólreiðamenn kunna að vera í hættu en ekkert meiri hættu af þessu ákvæði en bara almennt því að vera í umferðinni vegna þess að í hönnun okkar umferðarmannvirkja hefur svo lítið tillit verið tekið til þeirra.

Ég sé engan mun á þessari breytingu eða því sem við köllum í dag afreinar. Hjólreiðamaður sem er á leið úr Reykjavík til Kópavogs eftir því sem við köllum Hafnarfjarðarveg þarf að fara þar fram hjá afrein. Og þegar bílstjóri sem kemur af Bústaðaveginum, bara svo að ég nefni dæmi, ætlar að fara inn á aðalbrautina þá þarf viðkomandi bílstjóri að vega það og meta hvort hjólreiðamaður sé á ferð, hvort gangandi vegfarandi sé á ferð eða hvort bíll sé á ferð. Það er sú ábyrgð sem bílstjórar verða alltaf að axla og ég sé ekki að það sé nein breyting á því hvort við leyfum hægri beygju á móti rauðu ljósi, það er þessi ábyrgð.

Ég vil líka, frú forseti, vekja athygli á því að þegar Íslendingar sem hafa keyrt hér í nokkur ár koma til Kanada og þurfa að gangast undir kanadískt bílpróf, falla þeir yfirleitt flestir. Og hvers vegna? Það er vegna þess að þeir gleyma að taka tillit til hjólabrautanna sem þar eru. Þeir hafa alist upp við þetta í Kanada og eru mjög strangir á þessu, enda er ökumenning þar og í Bandaríkjunum margfalt betri en hér á landi, m.a. vegna þess að bílstjórum er þar betur treyst en við viljum gera hér.