Ferðasjóður íþróttafélaga

Þriðjudaginn 11. nóvember 2003, kl. 17:00:16 (1505)

2003-11-11 17:00:16# 130. lþ. 24.14 fundur 135. mál: #A ferðasjóður íþróttafélaga# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um ferðasjóð íþróttafélaga sem ég flyt ásamt hv. þm. Birki J. Jónssyni, Dagnýju Jónsdóttur, Guðjóni Hjörleifssyni, Kristjáni L. Möller, Magnúsi Stefánssyni og Sigurlín Margréti Sigurðardóttur.

Þessi þáltill. er mjög einföld:

,,Alþingi ályktar að veita árlega af fjárlögum fé í ferðasjóð íþróttafélaga til að standa straum af kostnaði við keppnisferðir þeirra á viðurkennd mót. Úthlutun fari eftir reglum sem menntamálaráðherra setur.``

Svo mörg voru þau orð. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að fátt er hverju byggðarlagi mikilvægara en öflug íþróttahreyfing. Við þekkjum það úti á landsbyggðinni að líklega eflir ekkert samkennd íbúanna jafnmikið og þegar keppnislið þeirra, hvort heldur er í körfuknattleik, handknattleik, knattspyrnu eða öðrum slíkum íþróttagreinum, heyja keppni við önnur félög. Þá stendur samfélagið allt saman á bak við sitt keppnisfólk. Þetta er með öðrum orðum afskaplega mikilvægur hluti af tilveru hvers og eins byggðarlags.

Fyrir þjóðina í heild er öflug íþróttastarfsemi einnig mikilvæg, vegna hollustunnar og forvarnagildisins en ekki síður vegna keppnisandans. Fátt sameinar þjóðina eins mikið og þegar strákarnir okkar eða stelpurnar okkar standa sig vel á alþjóðavettvangi í landsleikjum eða þegar spennandi leikir í úrslitakeppni eiga sér stað.

Við vildum ekki sjá af mörgum vöskum íþróttaliðum okkar af landsbyggðinni á Íslandsmótum eða í bikarkeppni. En því miður er staðan í fjármálum íþróttafélaganna þannig að sú umræða hefur komið upp í fúlustu alvöru hjá nokkrum öflugum íþróttaliðum. Íþróttalið frá Akureyri og Vestmannaeyjum hafa velt því fyrir sér hvort þau hafi ráð á að taka þátt í Íslandsmóti eða bikarkeppni með lið sín. Ástæðan er ferðakostnaðurinn, ferðakostnaðurinn við að taka þátt í Íslandsmóti eða bikarkeppni. Mér er kunnugt um að t.d. í Vestmannaeyjum mun kostnaðurinn, bara ferðakostnaðurinn, vera um 20 millj. kr. og þar á ofan bætist annar rekstrarkostnaður af íþróttadeildunum. Þetta er mjög alvarlegt mál.

Nú hefur verið praktíserað á hinu háa Alþingi að veita byggðastyrki í gegnum Byggðastofnun og með ýmsum hætti til að jafna samkeppnisaðstöðu á milli landsbyggðar og dreifbýlis. Hugsunin á bak við þessa þáltill. er að marka þá stefnu að viðurkenna gildi íþrótta fyrir dreifbýlið en ekki síður fyrir íþróttahreyfinguna í heild sinni. Hverjir hefðu viljað missa af KA í úrslitum í handboltanum, Vestmannaeyingum í bikarúrslitum o.s.frv.? Þessi lið auka á fjölbreytileikann í íþróttahreyfingunni, auka spennuna og þar af leiðandi styrkjast landslið okkar. Við eigum þar með meiri möguleika á að koma upp frábæru íþróttafólki. Þetta hefur skírskotun til hlutverks íþróttafélaga í hverju byggðarlagi og skírskotun til þess að jafna aðstöðu þannig að íþróttafélög á landinu öllu geti með sóma tekið þátt í Íslandsmóti eða bikarkeppni. Þáltill. felur í raun, frú forseti, í sér stefnumörkun af hálfu Alþingis þannig að hægt sé að jafna þennan aðstöðumun.

Að lokinni umræðu, frú forseti, mælist ég til að málinu verði vísað til hv. menntmn.