Aðstoð við sauðfjárbændur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 13:34:22 (1508)

2003-11-12 13:34:22# 130. lþ. 25.91 fundur 136#B aðstoð við sauðfjárbændur# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Fréttirnar frá því í gær um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna sauðfjárframleiðslunnar hafa vakið athygli. Offramboð hefur verið á kjöti á markaðnum í sumar og þetta offramboð hefur valdið mönnum í sauðfjárrækt vanda. En það hefur líka valdið vanda í svínarækt, kjúklingaframleiðslu og nautgriparækt og sjálfsagt hefur þessi vandi víðar komið við.

Þetta er auðvitað vandi landbúnaðarins í heild. Það skilja allir nema ríkisstjórnin og Bændasamtökin. Það eru bara tvær búgreinar í orðasafni ríkisstjórnarinnar, það er sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla. Hæstv. landbrh. stakk þess vegna upp á því í sumar að einungis hluti vandans, þ.e. sauðfjárræktin yrði skoðuð og hefur sú framleiðsla reyndar haft meiri stuðning ríkisvaldsins en aðrar framleiðslugreinar í landinu fram til þessa.

Nefnd um vanda sauðfjárbænda var skipuð í sumar og þar sat valinkunnt sæmdarfólk og ekkert við því að segja. Það komu 13 tillögur frá nefndinni. Mér telst til að 12 af þeim hafi verið samþykktar, einni hafnað.

Ég hef skilning á því að ríkisvaldið geti ekki hlaupið frá stefnu fyrri ára á stundinni og skilið sauðfjárbændur eftir í þrotum og það þarf að styðja bændur út úr þeim ógöngum sem þeir eru í. En það er engin framtíðarlausn fólgin í þeim ráðstöfunum fyrir sauðfjárbændur sem hér hafa verið kynntar. Það er allt óbreytt í grunninum. Það skal áfram vera bundið við það að framleiði menn kindakjöt eða mjólk eigi þeir stuðning vísan frá ríkinu. Aðrir möguleikar eru ekki til staðar í landbúnaði á Íslandi. Önnur atvinnustarfsemi í dreifbýlinu er ekki viðurkennd. Ég segi að engin framtíðarhugsun sé hjá ríkisstjórninni í landbúnaðarmálum. Hún lætur bændaforustuna leiða sig áfram og þar leiðir sannarlega haltur blindan um ófæruna, en líklega ætti að snúa málshættinum við í þessu tilfelli.