Aðstoð við sauðfjárbændur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 13:41:50 (1511)

2003-11-12 13:41:50# 130. lþ. 25.91 fundur 136#B aðstoð við sauðfjárbændur# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég held að þarft sé að fylgja því eftir í framhaldi af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar hvað gert verði að öðru leyti. Ég vil fyrst segja um það mál að rétt er að menn hafi í huga að ákveðið hefur verið að verja 140 milljónum upp í tekjufall hjá sauðfjárbændum, einni fátækustu stétt landsins upp á áætlaðar 250 millj. eða þar um bil. En það er til bóta svo langt sem það nær.

Ég er reyndar ósammála málshefjanda að það sé ekkert í tillögum nefndarinnar, sem ríkisstjórnin hefur að miklu leyti tekið undir, sem vísi til framtíðar og betri tíma í þessum efnum. Þar er þó ákvörðum um að ganga til viðræðna um endurskoðun á einstökum þáttum núgildandi samnings um sauðfjárframleiðsluna eða jafnvel gera nýjan samning í heild. Ég vísa til þess sem forustumenn Bændasamtakanna hafa sagt í þeim efnum að þeir gera sér vel grein fyrir því að mjög brýnt er að fara í að finna nýjan grundvöll fyrir þessari starfsemi.

Hitt er rétt að aðrar aðgerðir og ástandið ekki síst á kjötmarkaði, það hefur auðvitað dregist úr hömlu að taka á því og ég held að ekki þýði bara að kenna Samkeppnisstofnun og götóttri löggjöf um. Menn hafa látið það viðgangast að bankakerfið hefur fjármagnað bullandi offramleiðslu og undirboð, sérstaklega hjá stóru og skuldugu framleiðendunum sem eru að setja alla hina á hausinn innan eigin greinar. Og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst koma úr hörðustu átt að heyra í formanni svínabænda, ef ég tók rétt eftir, væla undan þessari aðstoð sem nú á að veita sauðfjárbændum og tala um að hún væri ósanngjörn í þessari samkeppni þegar það er ljóst að ástandið hjá svínabændum hefur verið þannig að stórkostleg mismunun hefur í raun og veru átt sér stað þannig að litlu aðilarnir eru smátt og smátt að hengjast í þessu fyrirkomulagi á meðan bankarnir gera út stóru framleiðendurna. En ég tel að um þetta megi segja í heild, herra forseti, að þetta sé skref í rétta átt svo langt sem það nær en það er auðvitað augljóst mál að fylgja þarf fleiri tillögum þarna eftir. Ég bendi sérstaklega á birgðastöðuna í sauðfjárræktinni og ástandið á kjötmarkaðnum almennt.