Sýkingarhætta á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:30:46 (1530)

2003-11-12 14:30:46# 130. lþ. 26.4 fundur 159. mál: #A sýkingarhætta á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til heilbrrh. um sýkingarhættu á sjúkrahúsum.

Tilefni þess er að bæði Haraldur Briem sóttvarnalæknir og Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans vöktu athygli á því í nýjasta hefti Læknablaðsins hve spítalasýkingum hefur fjölgað mikið á síðustu missirum og komu fram verulegar áhyggjur þeirra lækna á því slæma ástandi. Fram kom að þessi umtalsverða fjölgun á spítalasýkingum hefði leitt til þess að ítrekað hafi þurft að loka deildum vegna faraldra innan spítalans. Slíkar skyndilokanir hafi valdið mikilli röskun á starfsemi Landspítalans. Fram kom hjá sóttvarnalækni að ekki fari á milli mála að bágborin hreinlætisaðstaða sjúklinga og starfsfólks, mikil nálægð sjúklinga og síendurtekin tilfærsla þeirra grafi undan sýkingavarnastarfi, hversu vel sem reynt er að standa að því.

Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar telur að rekja megi fjölgun spítalasýkinga til aukinnar umsetningar sjúklinga, aukna bráðleika veikinda hjá þeim sem leggjast inn á sjúkrahús og ófullnægjandi salernis- og hreinlætisaðstöðu og benti m.a. á að á einni deild þurfi 13 sjúklingar að deila með sér einu salerni. Til þess er vísað að einbýlum fyrir sjúklinga hafi verið fækkað og salernum, og um 87% sjúklinga sem dvelji á sjúkrahúsum á deildum sem sérstaklega voru kannaðar dvelji á tvíbýli eða fjórbýli.

Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar vekur athygli á að faröldrum fjölgi á sama tíma og umsetning sjúklinga eykst og freistandi sé að tengja þessa atburði saman. Aðra áhættuþætti nefnir hann líka eins og helgarlokanir deilda sem leiða til flutnings sjúklinga á milli sjúkrastofa, og starfsmannaeklu. Skortur á starfsfólki hafi í för með sér að starfsfólk fer í ríkari mæli á milli sjúkradeilda vegna aukavakta. Slíkt geti haft í för með sér aukna hættu á útbreiðslu spítalasýkinga.

Skýringar sem þessir læknar gefa líka eru hönnunargallar og að ekki sé að finna neina staðla hér á landi um hönnun sjúkrahúsa með tilliti til sýkingavarna. Sóttvarnalæknir segir að á undanförnum árum hafi verið leitast við að bæta aðstöðu sjúklinga og sýkingavarnir við báða stóru spítalana en erfitt er um vik vegna upphaflegra hönnunargalla.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að spítalasýkingar séu samfélaginu afar dýrar. Fjárhagslegt tjón vegna spítalasýkinga hafi ekki verið metið en ætla megi að það hlaupi á hundruðum millj. kr. árlega.

Því hef ég leyft mér að leggja til hæstv. heilbrrh. eftirfarandi fsp:

1. Hver eru viðbrögð ráðherra við þeirri skoðun sóttvarnalæknis að strax verði að ráðast í byggingu nýs Landspítala vegna smithættu í núverandi byggingum?

2. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við niðurstöðum úr könnun yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss sem sýna að auknar sýkingar megi rekja til þess að salernis- og hreinlætisaðstaða sé ófullnægjandi á spítalanum?

3. Verður það kannað nánar sem fram kemur hjá sóttvarnalækni að ætla megi að spítalasýkingar kosti Íslendinga hundruð milljóna króna á ári hverju?

4. Hve mörg sýkingartilvik sem landlæknir metur að hafi verið alvarleg hafa komið upp á sjúkrahúsum sl. fimm ár?