Sýkingarhætta á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:44:34 (1535)

2003-11-12 14:44:34# 130. lþ. 26.4 fundur 159. mál: #A sýkingarhætta á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég er hræddur um að fyrirspyrjandi hafi misskilið mig eitthvað ef hann telur að ég telji þetta mál ekki alvarlegt. Auðvitað er þetta mál alvarlegt og ég vitnaði einungis í greinar um málið. Auðvitað ber okkur skylda til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þessar sýkingar.

Það er engan veginn ljóst að kærumál til landlæknis endurspegli þennan vanda til fulls. Við þurfum að skoða það. Hins vegar tek ég undir það, og við fyrirspyrjandi erum sammála um það, að við verðum að búa við Landspítalann um árabil í viðbót. Það er ekkert áhlaupaverk að byggja nýjan spítala. Vissulega hefur verið í gangi undirbúningur að slíku verki en hann þarf að fara fram í mörgum þrepum. Það er verið að ljúka við annað þrepið. Í fyrsta lagi er ákveðið að Landspítalinn verði við Hringbraut. Í öðru lagi er verið að semja við Reykjavíkurborg um byggingamagn og skipulag á lóðunum þar. Þá er komið að næsta þætti. Þá fer að nálgast þá miklu ákvörðun hvernig að þessu verði staðið.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að spítalinn eigi að vera á einum stað. Það er í rauninni stefnumörkun hjá okkur. Ég vona það svo sannarlega að hægt sé að berjast við sýkingarnar án þess að byggja þurfi nýjan spítala vegna þeirra sérstaklega. Ég vil vara við því.

Ég vil taka undir með hv. þm. Þuríði Backman að við þurfum að fara yfir alla ferlana í svo einföldum málum eins og (Forseti hringir.) þrifum og umgengni. Ég veit að hjúkrunarfræðingurinn, hv. þm., talar þar af reynslu.