Samkomulag við heimilislækna

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:47:20 (1536)

2003-11-12 14:47:20# 130. lþ. 26.2 fundur 118. mál: #A samkomulag við heimilislækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir um það bil ári var á Alþingi umræða utan dagskrár um stöðu heilsugæslunnar. Tilefnið var að stór hópur heilsugæslulækna hafði sagt upp störfum vegna réttindabaráttu sinnar sem fyrst og fremst snerist um að þessi stétt sérfræðinga innan læknastéttarinnar fengi viðurkenningu og réttindi til jafns á við aðra sérfræðilækna og hefði heimild til að starfa sjálfstætt og gera svokallaða gjaldskrársamninga. Deilan við ráðuneytið var hörð og þung orð hafa fallið af hálfu fulltrúa lækna en einnig af hálfu fulltrúa heilbrrn.

Þessi deila stóð lengi og er alls ekki að fullu búið að leysa öll þau ágreiningsefni sem uppi voru. Sumir læknanna sem sögðu upp störfum sneru aftur til vinnu sinnar en aðrir til starfa annars staðar. Það er langt í frá að hér á landi sé starfandi sá fjöldi heilsugæslulækna sem við þurfum til þess að hér sé hægt að reka þessa mikilvægu grunnþjónustu heilsugæslunnar eins og lög gera ráð fyrir. Ég tel að þær langvarandi deilur sem staðið hafa yfir um réttindi heimilis- eða heilsugæslulækna eigi stóran þátt í því hversu illa hefur gengið að manna stöður í heilsugæslunni og byggja hana upp þannig að hún standi undir nafni, veiti þá þjónustu sem hver einstaklingur á rétt á. Það er mín skoðun að þar sé ekki við þessa starfsstétt að sakast heldur langtímastefnuleysi í málefnum heilsugæslunnar.

Allt of fáir hafa sótt í sérfræðinám heimilislækna þó að nú sé sem betur fer eitthvað að rofa til í þeim efnum. Áreiðalega á sú viljayfirlýsing sem undirrituð var í kjölfar réttindabaráttu lækna af Félagi íslenskra heimilislækna og hæstv. heilbrrh. einhvern þátt í þeirri breytingu. Viljayfirlýsingin fól m.a. í sér auknar heimildir til þessara sérfræðilækna um sjálfstæðan rekstur og samninganefnd var skipuð til að útfæra þetta samkomulag. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur verið gengið frá samkomulagi við heimilislækna um sjálfstæðan rekstur heilsugæslustöðva í samræmi við viljayfirlýsingu sem undirrituð var af Félagi íslenskra heimilislækna og ráðherra? Ef svo er, hvað felst í því samkomulagi? Ef ekki, hvenær má vænta niðurstöðu?