Samkomulag við heimilislækna

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 14:57:31 (1540)

2003-11-12 14:57:31# 130. lþ. 26.2 fundur 118. mál: #A samkomulag við heimilislækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vísa því algerlega á bug að það sé áhugaleysi fyrir þessum málum í heilbrrn. Starfsmenn ráðuneytisins hafa lagt í þetta mál mjög mikla vinnu og eiga eftir að gera það. Ég vísa því á bug að áhugaleysi ríki um þessi mál innan ráðuneytisins. Hins vegar þakka ég hv. fyrirspyrjanda fyrir að styðja mig í því að reyna að efla ráðuneytið. Það er að mínu mati undirmannað. Þar þyrfti að vera fleira starfsfólk. Ég er gamalreyndur í fjárlagagerð og man eftir því við 1. og 2. umr. fjárlaga á þessum stað að endalaust er talað um --- vel getur verið að það sé breytt núna --- að ráðuneytin þenjist út og þar fram eftir götunum. Það er önnur saga. En ég þakka fyrirspyrjanda stuðninginn.

Ég fullyrði að fullur áhugi er fyrir þessu máli og fullur áhugi fyrir málefnum heilsugæslunnar. Við viljum efla hana og komast að niðurstöðu um samkomulag í þessum efnum.

En það er alveg ljóst varðandi það sem hv. þm. Þuríður Backman sagði að áhuginn fyrir fleiri rekstrarformum er minni á landsbyggðinni vegna aðstæðna þar heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Ég hygg að það verði fleiri rekstrarform hér og ég held að við því sé ekkert að segja. Ég ætla að láta það verða mín lokaorð að ég vona að við vinnum okkur til (Forseti hringir.) niðurstöðu í þessu máli á næstunni.