Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:00:08 (1541)

2003-11-12 15:00:08# 130. lþ. 26.3 fundur 119. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir meira en ári, í kjölfar þess að mjög veikur einstaklingur var talinn hafa orðið manni að bana, varð mikil umræða í þjóðfélaginu um nauðsyn þess að komið yrði á fót lokaðri öryggisdeild fyrir geðfatlaða einstaklinga sem talin var hætta á að sköðuðu sjálfa sig eða aðra. Þá hefur á undanförnum árum oftar en ekki í kjölfar einhverra alvarlegra atburða, eins og sjálfsvíga innan fangelsa, verið rædd nauðsyn þess að koma á lokaðri öryggisdeild fyrir sakhæfa afbrotamenn.

Fyrir ári lágu fyrir yfirlýsingar þess efnis að lokuð öryggisdeild yrði sett á laggirnar og loforð ráðherra um úrbætur í málum þessa alvarlega veika fólks, og nú ári seinna mátti sjá byrjunarfjárveitingu til verkefnisins.

Það er eins og allir vita rekin réttargeðdeild með góðum árangri á Sogni í Ölfusi. Starfsmenn á Sogni hafa margsinnis lýst vilja sínum til þess að taka aukin verkefni og fyrir löngu síðan voru lagðar fram teikningar að tiltölulega auðveldri og ódýrri lausn, viðbyggingu við Sogn þar sem leysa mætti brýnasta vandann hvað varðar þá einstaklinga sem þarf að vista á lokaðri öryggisdeild. Á Sogni er þrautþjálfað starfsfólk jafnt fagfólk sem ófaglært. Þar er þekking og reynsla ásamt góðum árangri í starfi. Það hefði því varla átt að vefjast fyrir hæstv. ráðherra að leysa málið í samstarfi við þetta fólk og Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, sem hefur yfirumsjón með rekstri Sogns og hefur vel að merkja lýst eindregnum vilja til þess að taka að sér þetta verkefni. Auk þess hefur starfsfólk á Sogni og framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi lýst vilja sínum til þess að taka yfir rekstur Gunnarsholts sem nú hefur verið lokað og eru tillögur þeirra í þá veru að tengja saman rekstur þessara stofnana, þ.e. Gunnarsholt, Sogn og Sjúkrahúsið á Selfossi á sviði geðlækninga, og einnig þjónustuna við Litla-Hraun.

Þessi vinna og hugmyndir þeirra um þróun réttargeðlækninga fyrir sakhæfa og ósakhæfa geðsjúklinga hafa varla verið virtar svars og nú liggja fyrir upplýsingar þess efnis að í gær hafi fulltrúar ráðuneytis mætt á fund fjárln. og tilkynnt að þær 25 millj. sem ætlaðar eru á fjárlögum til að byggja upp lokaða öryggisdeild fyrir geðsjúka eigi að fara til Arnarholts. Það eigi sem sé ekki að nýta þá sérþekkingu sem nú þegar er til staðar hjá starfsfólkinu á Sogni heldur byggja upp annars staðar. Hvað er hæft í þessu og hver eru rökin fyrir því? Því spyr ég:

Hefur staðsetning lokaðrar öryggisdeildar fyrir geðfatlaða verið ákveðin? Ef svo er, hvar verður hún og hvenær má vænta þess að hún taki til starfa?