Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:03:02 (1542)

2003-11-12 15:03:02# 130. lþ. 26.3 fundur 119. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði um starfsemi lokaðrar öryggisdeildar fyrir geðfatlaða. Eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda var skipuð þriggja manna nefnd þriggja ráðuneyta fyrir um ári síðan til að fara yfir möguleg úrræði fyrir alvarlega geðveika einstaklinga eða geðsjúka og skyldi nefndin koma með tillögur til úrbóta í þágu þessa hóps. Lagt var fyrir nefndina að skila ríkisstjórn skýrslu um störf sín og eftir sex mánaða starf skilaði nefndin niðurstöðum sínum innan þess tíma sem henni var settur.

Ein þungamiðjan í tillögum nefndarinnar var að koma á laggirnar geðdeild sem teldist millistig milli hefðbundinnar geðdeildar og réttargeðdeildarinnar á Sogni. Deild þessi verði lokuð og mönnuð sérhæfðu fólki, svokölluð öryggisdeild. Nefndin og þeir sérfræðingar sem unnu fyrir hana létu í ljós þá skoðun að rekstur deildarinnar væri best kominn í höndum geðdeildar Landspítalans -- háskólasjúkrahúss sem ein af deildum geðsviðs spítalans, sem er stærsta geðdeild sem rekin er hér á landi.

Ég hef í framhaldi af þessu falið Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi að gera tillögur um framkvæmd þessa verks. Í þeim tillögum er gert ráð fyrir að deildinni verði fundinn staður í tengslum við núverandi starfsemi geðsviðs sjúkrahússins, t.d. í Arnarholti, en ekki liggja fyrir tillögur um það frá spítalanum enn. Eins og fram kom hefur ráðuneytið leitað eftir fé til að koma deildinni á laggirnar og það eru byrjunarfjárveitingar í þessu skyni á fjárlögum og í fjárlagafrv. næsta árs og ég vona að hægt verði að koma þessari deild á laggirnar á næsta ári.