Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:08:38 (1545)

2003-11-12 15:08:38# 130. lþ. 26.3 fundur 119. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Margréti Frímannsdóttur, fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli. Ég verð að segja að ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með svör hæstv. heilbrrh. Ég gat skilið af þeim að það væri nú í höndum Landspítalans að gera tillögu um það hvort þessi lokaða öryggisdeild fyrir geðfatlaða yrði á Landspítalanum eða annars staðar. Auðvitað koma ekki tillögur frá Landspítalanum um neitt annað en að þessi deild verði á Landspítalanum. Ég vil taka undir mál þeirra sem hér hafa talað og hvetja hæstv. ráðherra til þess að skoða í alvöru hvort ekki sé rétt að koma þessari starfsemi fyrir á Sogni í Ölfusi.

Mér þykir það reyndar svolítið undarlegt, virðulegi forseti, ef óskað er eftir fjárveitingum til að opna öryggisgeðdeild í Arnarholti á Kjalarnesi ef ekki er búið að taka ákvörðun um að þar eigi að opna öryggisgeðdeild. En enn og aftur, hæstv. ráðherra, ég hvet þig til að skoða mjög vel þær tillögur sem fram koma og velta því fyrir þér í alvöru hvar þessari starfsemi er best fyrir komið.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þm. að beina orðum sínum til forseta en ekki til ráðherra eða einstakra þingmanna.)