Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:11:24 (1547)

2003-11-12 15:11:24# 130. lþ. 26.3 fundur 119. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að ráðherra segir að hér hafi ekki verið tekin endanleg ákvörðun en vil samt benda á að í tillögum ráðuneytisins, tillögu að skiptingu fjár á fjárlagalið 08-381 6.90 fyrir árið 2004, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, kemur mjög skýrt fram: Arnarholt 25,8 millj. sem þar eiga að fara í uppbyggingu vegna þessara mála. Og hæstv. ráðherra segir: Ég hef ekki tekið endanlega ákvörðun en engu að síður hefur hæstv. ráðherra, eftir því sem ég skil hann, falið Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi, geðsviðinu, að vinna frekar að málinu.

Sú sérþekking sem við höfum á þessu sviði er á Sogni. Hún er hjá því starfsfólki sem þar vinnur hvort sem það er faglært eða ófaglært. Og ég hefði talið eðlilegra þegar verið væri að leita eftir tillögum til úrbóta til þess að koma þessu fjármagni á réttan stað og það nýttist sem allra best, að þeir sem búa yfir þessari sérþekkingu væru ráðgjafarnir. Ég man ekki til þess að Landspítalinn -- háskólasjúkrahús, sem ég dreg alls ekki í efa að sé með mjög hæft starfsfólk á sínu sviði, hafi sóst eitthvað sérstaklega eftir því að sinna ósakhæfum eða sakhæfum afbrotamönnum geðveikum. Ég veit ekki til þess að það hafi verið sóst neitt sérstaklega eftir því. Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók að sér þetta verkefni og hefur sinnt því mjög vel og við munum einfaldlega aldrei taka því þegjandi að þessi starfsemi sé klofin svona sundur því að það er að mínu viti fyrsti vísirinn að því að leggja niður réttargeðdeildina þar sem hún er á Sogni. Við munum ekki í framtíðinni reka tvær öryggisgeðdeildir í landinu.