Ofbeldi gegn börnum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:49:53 (1564)

2003-11-12 15:49:53# 130. lþ. 26.8 fundur 274. mál: #A ofbeldi gegn börnum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég taldi nú ekki að það hefði skort neinn vilja hjá vísindamönnum til að sinna þessu verkefni. En nú liggur fyrir að vísindamenn eru að sinna verkefninu í samvinnu við umboðsmann barna og dómsmrn. hefur veitt fé til að sú rannsókn geti farið fram og ég sé ekki betur en að málið sé í góðum farvegi.

Hins vegar varðandi birtingu á niðurstöðum rannsóknarinnar lít ég þannig á að þótt ráðuneytið hafi styrkt rannsóknirnar sé það ekki endilega þess að birta þær niðurstöður. Það er að sjálfsögðu vísindmannanna sem vinna að verkefninu með umboðsmanni barna að birta rannsóknarniðurstöðurnar. Það kann hins vegar að koma síðan til kasta ráðuneytisins að bregðast við eins og þingmanna allra ef nauðsynlegt reynist að breyta lögum í ljósi þeirrar niðurstöðu sem kann að koma út úr rannsóknunum.

En málið er komið af stað, rannsóknirnar eru hafnar og þær eru stundaðar á þann vísindalega hátt sem nauðsynlegt er sem ráðuneyti geta aldrei stundað. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að auðvitað hafi þurft að fá vísindamenn til samstarfs um málið og það hefur tekist af hálfu umboðsmanns, og síðan hefur fengist fé frá ráðuneytinu til að rannsóknin fari fram. Ég sé því ekki hvað hv. þm. er að gagnrýna þau orð sem ég fór hér með. En birting á niðurstöðunum er náttúrlega háð því sem vísindamennirnir sjálfir ákveða. Þetta er þeirra rannsókn í samvinnu við umboðsmann barna og það er þeirra aðila að taka ákvörðun um birtingu en ekki dómsmrh. að birta áfangaskýrslu um niðurstöður slíkra rannsókna.