Farþegaskattur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:01:03 (1570)

2003-11-12 18:01:03# 130. lþ. 26.11 fundur 217. mál: #A farþegaskattur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um farþegaskatta. Eins og staðan er í dag erum við með farþegaskatta sem felast í m.a. innritunargjöldum, það eru flugvallarskattar og svo vopnaleitargjald sem leggjast ofan á verð farseðils í flugi.

Þessir farþegaskattar hafa verið nokkuð í umræðunni, sérstaklega núna í ljósi harðnandi samkeppni í fluginu. Einnig hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemdir við þessa skatta sem hún telur ekki samræmast EES-samningnum, þ.e. í því ljósi að það samræmist honum ekki að vera með mismunandi skatt í millilandaflugi og innanlandsflugi.

Fram hafa komið vísbendingar um að þessi skattlagning hafi haft áhrif á flugið og ferðaþjónustuna. Það upplýsti hæstv. ráðherra á ferðaráðstefnu Ferðamálaráðs nú fyrir skömmu. Eins og menn vita skiptir verð í ferðaþjónustunni mjög miklu máli í mikilli samkeppni eins og ríkir nú, sérstaklega verð á flugferðum.

Vegna þess að hæstv. ráðherra ýjaði að því á ferðamálaráðstefnunni sem ég vitnaði til að hann hygðist breyta þessum farþegasköttum spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann muni breyta álagningu farþegaskatta í ljósi áhrifa þeirra á ferðaþjónustuna og ef svo er, í hverju þær breytingar muni felast. Ætlar hann að leggja þá alfarið af?