Farþegaskattur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:07:20 (1572)

2003-11-12 18:07:20# 130. lþ. 26.11 fundur 217. mál: #A farþegaskattur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við í Samfylkingunni, og reyndar ábyggilega allir þingmenn, viljum gera það sem hægt er til þess að auka fjölda þeirra sem sækja landið heim. Ég fagna því að hæstv. samgrh. lýsir því hér yfir að það komi sterklega til greina að endurskoða farþegaskatta. Hann vísar til þess að það sé nauðsynlegt að breyta lögum. Sannarlega munum við hjálpa honum til þess.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að ef verð á farmiðum mundi lækka þá mundi það að öllum líkindum leiða til þess að fleiri kæmu til landsins. Er þá ekki sjálfgefið að ef farþegaskattarnir eru lækkaðir og þar með verð á farmiðum lækkað þá munu fleiri koma til landsins? Það er yfirlýst markmið hæstv. ráðherra og getur hann þá ekki lýst því yfir hér og nú að hann muni gera það?

Í annan stað langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki koma til greina að lækka eða fella niður lendingargjöld að vetrarlagi í því skyni að auka fjölda ferðamanna hingað á þeim tíma ársins með svokölluðum lággjaldaflugfélögum.