Farþegaskattur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:08:34 (1573)

2003-11-12 18:08:34# 130. lþ. 26.11 fundur 217. mál: #A farþegaskattur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Vissulega er það ánægjuefni ef hann áformar að lækka þessa skatta og jafnvel vonandi afnema þá.

Það er rétt að fram hefur komið, eins og hæstv. ráðherra sagði, að ef flugfarseðlar kosta minna þá fjölgar farþegum og þá fáum við meiri tekjur inn í landið í gegnum ferðaþjónustuna, en í dag er skatttekjur af ferðamönnum á ári 9 milljarðar samkvæmt nýlegum útreikningum þannig að þetta eru verulegir peningar sem koma í ríkissjóð.

Hæstv. ráðherra segir hér að hann ætli að bíða eftir dómnum í desember með það hvað hann geri. Hann hefur verið að kanna nýjar leiðir. Það væri fróðlegt að heyra hjá hæstv. ráðherra hvaða nýjum leiðum hann hefur hugað að og síðan hvernig hann hyggst kosta flughluta flugmálaáætlunar og hvort í það geti þá ekki farið beint eitthvað af þeim skattpeningum sem við fáum inn af ferðaþjónustunni.

Það væri líka fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra segja frá afstöðu sinni til lækkunar lendingargjalda sem eru vissulega hluti af farmiðagjaldinu í fluginu. Það væri því rík ástæða til þess að skoða það, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur lagt áherslu á að auka ferðaþjónustuna eða komu ferðamanna hingað allt árið og sérstaklega á þessum dauðu tímum sem eru yfir veturinn. Það er ástæða til að skoða einmitt þann þátt.