Farþegaskattur

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:10:27 (1574)

2003-11-12 18:10:27# 130. lþ. 26.11 fundur 217. mál: #A farþegaskattur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson velti fyrir sér þeim möguleika hvort e.t.v. væri skynsamlegt að lækka --- ég skildi það svo --- farþegaskatta og þá eftir atvikum lendingargjöld að vetrarlagi til þess að reyna að draga hingað fleiri til landsins. Það hefur ekki út af fyrir sig verið til sérstakrar skoðunar hjá okkur að hafa þessa skattlagningu mismunandi eftir árstíðum. Ég sé ekki alveg á hvaða forsendum ætti að gera það vegna þess að við erum jú auðvitað að innheimta skatta til þess að fá tilteknar tekjur. Það gerum við með farþegasköttunum. Hins vegar eru það lendingargjöldin sem eiga að standa undir kostnaði við þjónustuna á flugvöllunum.

Ég veit að stjórnendur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafa lagt í mjög mikla vinnu við að skoða alla kosti þess að reyna að draga sem flesta að þjónustu á flugvellinum og fá fleiri farþega um völlinn. Það er af hinu góða. En ég tel á þessu stigi ekki skynsamlegt að gefa neinar yfirlýsingar um það hvernig við ættum e.t.v. að breyta skattlagningarkerfi okkar. Ég vil bíða, eins og ég sagði áðan, til þess tíma að niðurstaða liggur frá frá dómstólnum í Lúxemborg.

Hv. fyrirspyrjandi nefndi lækkun lendingargjalda. Ég tel að e.t.v. séu ekki forsendur fyrir því, þó að ég hafi ekki glöggar upplýsingar um það í dag, vegna afkomu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eins og er og rekstrar á Keflavíkurflugvelli. En ég tel nauðsynlegt að taka þetta allt saman til (Forseti hringir.) gagngerrar endurskoðunar með það sérstaklega í huga að fara þær leiðir við þessa skattlagningu sem tryggja annars vegar tekjurnar og svo hins vegar að það gæti orðið (Forseti hringir.) hvatning til þess að fleiri komi til landsins með flugi.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hæstv. ráðherra að virða ræðutíma.)