Úthlutun fjár til kynningar- og markaðsmála í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:16:46 (1576)

2003-11-12 18:16:46# 130. lþ. 26.12 fundur 219. mál: #A úthlutun fjár til kynningar- og markaðsmála í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spyr: Hvernig hyggst ráðherra úthluta þeim 320 millj. kr. sem ætlaðar eru til markaðs- og kynningarmála í ferðaþjónustu í fjárlögum fyrir árið 2004? Verða gerðar breytingar frá úthlutunarreglum fyrra árs og ef svo er, þá hverjar?

Í ljósi góðrar reynslu munu þessir fjármunir fara í sérstakt markaðsátak undir stjórn ferðamálastjóra og hans fólks. Reikna ég með að umfangsmikilli auglýsinga- og kynningarherferð verði hrundið af stað á hefðbundnum markaðssvæðum, en einnig verði stutt við markaðsstarf í Japan sem gefur góðar vonir og er farið að skila sér. Eins geri ég ráð fyrir að skrifstofa Ferðamálaráðs muni í byrjun næsta árs bjóða út fjármuni til samstarfsverkefna og leitast þannig við að tvöfalda það fjármagn sem kemur frá hinu opinbera. Þetta hefur verið gert tvisvar sinnum og gafst mjög vel.

Í fyrirspurninni er spurt um úthlutun 320 millj. kr. á árinu 2004 og hvort gerðar verði breytingar á úthlutunarreglum fyrra árs. Hér er líklega átt við þann hluta umræddrar fjárveitingar á árinu 2003 sem nýttur var til samstarfsverkefna á þann hátt að auglýst var eftir samstarfsaðilum sem væru reiðubúnir til að leggja a.m.k. sömu upphæð og hið opinbera til almennra kynningarverkefna á innlendum og erlendum mörkuðum. Engum fjármunum var úthlutað, heldur ákveðið á grundvelli umsókna til hvaða samstarfs yrði gengið, það er nauðsynlegt að undirstrika það.

Á árinu 2003 voru alls 217 millj. kr. boðnar út, ef þannig má að orði komast, í þeim tilgangi. Á þessu ári er unnið að almennum markaðsverkefnum fyrir um 440 millj. kr., þar sem meira en helmingurinn kemur frá þessum samstarfsaðilum. Með þessu fyrirkomulagi hefur því tekist að meira en tvöfalda þá fjármuni sem nýttir eru til þessara almennu kynningarverkefna.

Samkvæmt upplýsingum ferðamálastjóra eru ekki fyrirhugaðar meginbreytingar á þessu fyrirkomulagi vegna ársins 2004. Svipað hlutfall fjárveitingar og í ár verður nýtt til samstarfsverkefna, auk þess eins og áður sagði, verður hluta hennar varið til kynningarmála í Japan. Rúmlega 20% fjárveitingarinnar fer til kynningarverkefna Ferðamálaráðs á innlendum markaði og á hefðbundnum markaðssvæðum okkar erlendis.

Nokkurs misskilnings gætti um þetta fyrirkomulag á yfirstandandi ári, en ég vil hins vegar ekki taka undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði að það hafi verið harðlega gagnrýnt. Þegar verið er að skipta fjármunum upp á milli aðila eru alltaf margir sem vilja komast í það, en þessi misskilningur var nokkur á síðasta ári, þar sem m.a. kom fram að verið væri að auglýsa styrki en ekki verið að leita eftir samstarfsaðilum. Vegna þessa verður nú lögð mikil áhersla á að kynna fyrirkomulagið enn frekar til að sem flestum áhugasömum um samstarf sé ljóst hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að geta gengið til slíks samstarfs. Þetta verður m.a. gert með upplýsingafundum, auk hefðbundinna auglýsinga.

Það er von mín að þetta ágæta fyrirkomulag og það mikilvæga samstarf sem náðist við ferðaþjónustuaðila, sem voru tilbúnir til að ganga til þessa mikilvæga verkefnis að kynna landið okkar og kosta miklu til, megi takast vel. Miðað við þau viðbrögð og þann áhuga sem þessu er sýnt, á ég ekki von á öðru en þetta muni ganga vel og muni sýna sig í fjölgun erlendra ferðamanna sem koma til landsins, þá er tilganginum náð.