Fjarskiptasamband

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:28:15 (1580)

2003-11-12 18:28:15# 130. lþ. 26.10 fundur 196. mál: #A fjarskiptasamband# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Það er kannski nauðsynlegt áður en ég tek til við að svara fyrirspurn hv. þm. sem fjallar annars vegar um, fjarskipta GSM-sambönd í Norðurárdal í Skagafirði og Öxnadalsheiði og svo á Þverárfjallsveginum, er kannski rétt að vekja athygli á því að auðvitað er mikilvægasta öryggisaðgerðin fyrir hvern ferðalang fyrirhyggja og góður útbúnaður á ökutækjum. Það er því ekki hægt að treysta algerlega á símasamband til þess að sleppa við óhöppin. Þetta vil ég segja í upphafi.

Annars liggur ekki fyrir á þessari stundu að símafyrirtækin hafi undirbúið eða geri ráð fyrir framkvæmdum við uppsetningu á fjarskiptabúnaði, GSM-sendum, á þessum tilteknu fjallvegum. GSM-væðing þess hluta stofnvegakerfisins sem hefur ekki slík sambönd um þessar mundir er dýrt verkefni og nauðsynlegt að leita leiða til að lækka stofn- og rekstrarkostnað GSM-sambandanna, það er alveg ljóst. Lauslegt mat Vegagerðarinnar gefur til kynna að stofnkostnaður á stofnvegakerfi landsins við uppbyggingu GSM-kerfanna sé nærri 2 milljarðar kr. Þarna er því um feiknarlega mikla fjárfestingu að ræða, sem verður vonandi hægt að ráðast í áður en langt um líður og eftir því sem vegakerfið byggist upp.

Hvorki Landssími Íslands né Vodafone hafa uppi frekari áform, eftir upplýsingum ráðuneytisins, um uppbyggingu GSM-dreifikerfisins. Stefna fyrirtækjanna miðast eins og er við styrkingu svæða sem þau þjóna í dag. Það hefur áður komið fram í umræðum í þinginu.

Póst- og fjarskiptastofnun kannaði, að beiðni samgrn., afstöðu fyrirtækjanna til frekari uppbyggingar, þ.e. útbreiðslu á netum í ársbyrjun 2003. Þar kom fram afstaða fyrirtækjanna, sem lýst var hér á undan, og ekki verður ráðið að þessi afstaða þeirra hafi breyst.

Því beitti ráðuneytið sér fyrir því í samvinnu við Vegagerðina að leita annarra kosta í þessum málum til þess að bæta þjónustu og auka, eins og hægt er, öryggi á vegum. Í framhaldinu hefur Vegagerðin ákveðið að fara af stað með tilraunaverkefni sem miðar að því að kanna hagkvæmari leiðir sem styðja mætti með útboði á verkinu í náinni framtíð og byggja þannig upp fjarskiptaþjónustu á fjallvegunum. Verkefnið felst í tilraunum með nýja tækni sem kallar á færri senda og þar af leiðandi minni stofnkostnað og lægri rekstrarkostnað, sem skiptir miklu máli. Fyrirhugað er að tilraunaverkefnið verði framkvæmt á Öxnadalsheiðinni og á svæðum þar í nágrenninu. Verkfræðistofnun Háskólans mun sinna þessu verkefni fyrir Vegagerðina. Undirbúningur þessarar vinnu er vel á veg kominn en ekki hægt að nefna tímasetningar á þessu stigi. Frekari ákvarðanir um uppbyggingu þessara kerfa af hálfu Vegagerðarinnar bíða því niðurstöðu þessa verkefnis, sem ég vona svo sannarlega að liggi fyrir sem allra fyrst.

Það er eins með uppbyggingu fjarskiptakerfisins í landinu og uppbyggingu vegakerfisins að allt tekur þetta tíma. Við gerum miklar kröfur, við ferðumst mikið, við viljum góða vegi og við viljum öryggi á vegunum. Hluti af öryggiskerfinu er annars vegar góð þjónusta á vegunum og þar með góð fjarskiptaþjónusta. Við vitum öll að það er krafa dagsins að fólk geti verið í góðu fjarskiptasambandi.

Ég bind því miklar vonir við að athuganir Vegagerðarinnar og síðan í framhaldinu samstarf við fjarskiptafyrirtækin geti leitt okkur fram á veginn í þessum efnum og tryggt góð fjarskiptasambönd á stofnvegakerfi landsins, ekki síst á fjallvegunum þar sem allra veðra er von.